Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:47:09 (6076)

2002-03-12 17:47:09# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. hreinskilnina í þessum efnum. Ég gerði mér það kannski ekki í hugarlund að hann hefði á hraðbergi það sem ég var að spyrja um. Hins vegar finnst mér ástæða til þess að neytendum sé ljóst að fjölmörg gjöld eru til alls konar félagslegrar jöfnunar, t.d. vegna vegalengdar frá einstökum búum til afurðastöðva sem eru tekin af framleiðendum til þess að jafna. Síðan er þetta sem við erum að tala um, búnaðargjaldið. Það er misjafnt eftir því hvort það er lagt á heildsöluna eða hvort það er lagt á eftir á sem skattur. Það er verið að leiðrétta. En ég hygg að neytendum sé fleirum farið eins og mér, að gera sér ekki grein fyrir því hve margs konar gjöld eru lögð á framleiðslu í landbúnaði.

Annað var það ekki, virðulegur forseti. Ég tel að ég hafi fengið svar við því sem ég nefndi.