Líftækniiðnaður

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:59:24 (6081)

2002-03-12 17:59:24# 127. lþ. 95.14 fundur 548. mál: #A líftækniiðnaður# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem mjög brýnt er að taka á, þ.e. löggjöf um líftækniiðnað. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er hér ekki um að ræða heildstæða löggjöf á þessu sviði heldur er fyrst og fremst farið inn á stjórnsýsluþáttinn er þetta svið varðar.

Í greinargerð með frv. er vísað til rannsókna sem hafa verið stundaðar á Iðntæknistofnun. Jafnframt kemur fram að vísindamenn hvaðanæva að úr heiminum hafi haft óheftan aðgang að þessari auðlind hér á landi og að fyrir hendi væri lítil vitneskja um hvar sýni hafi verið tekin, en að hins vegar sé vitað að þau hafi verið rannsökuð erlendis og skilað sér inn í framleiðslu.

Það kemur jafnframt fram að samvæmt Ríó-sáttmálanum hafi ríki fullveldisrétt yfir eigin líffræðilegum auðlindum og að þetta frv. sé smíðað til að tryggja hagsmuni Íslands hvað þetta snertir.

Eitt atriði vildi ég koma lítillega inn á og það lýtur að stjórnsýsluþættinum. Hér er um það rætt að iðnrh. fari með vald yfir þessum málaflokki. Reyndar kemur einnig fram að leyfi sem veitt séu samkvæmt þessu frv. skuli veitt að höfðu samráði við umhvrh. og að Náttúrufræðistofnun Íslands fari með eftirlit með rannsóknum og nýtingu samkvæmt lagafrv.

Mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. hvernig þessum málum sé farið annars staðar og hvort þá sé að finna löggjöf í ríkjum sem búa yfir þessum auðlindum, t.d. Bandaríkjunum og Nýja-Sjálandi --- manni dettur í hug þau ríki þar sem aðstæður eru svipaðar okkar --- og þá undir hvaða þátt stjórnsýslunnar þessi málaflokkur taki. Ég hef heyrt þær áherslur uppi í umræðu um þessi efni að mönnum finnist mörgum að þáttur umhvrn. eigi að vera stærri en raun ber vitni í þessu lagafrv.