Líftækniiðnaður

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:06:30 (6084)

2002-03-12 18:06:30# 127. lþ. 95.14 fundur 548. mál: #A líftækniiðnaður# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að segja að þarna hafi ekki orðið nein stórslys og ég held að það hafi verið mikilvægt að árið 1998, þegar lög voru sett á hv. Alþingi um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, var sett inn grein, 34. gr., sem ég vitnaði til sem bjargaði því sem bjargað varð á þeim tíma. Reyndar voru þar ákveðin fyrirmæli samþykkt sem við því miður höfum ekki alveg getað staðið við vegna þess að þar var kveðið á um að sú grein skyldi endurskoðuð fyrir 1. janúar 2001 en það er fyrst núna sem okkur mun vonandi takast að setja lög til að taka af í raun þá grein þeirra laga.

Þegar um það er að ræða að taka sýni, þá er þetta miklu frekar í teskeiðarformi en í stærra formi þannig að það er ekki eins og það sé um mikinn uppgröft að ræða, en ég held að það geti alveg komið upp álitamál í sambandi við það sem hv. þm. nefndi eins og einokunaraðstöðu og ég tel mikilvægt að farið verði gaumgæfilega yfir það í meðförum þingsins í hv. nefnd.