Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:20:48 (6089)

2002-03-12 18:20:48# 127. lþ. 95.15 fundur 605. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er um að ræða mikilvægt frv. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, en eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra var þetta eða svipað frv. lagt fram á síðasta þingi og síðan frestað en m.a. höfðu komið fram ábendingar og mótbárur frá verkalýðssamtökunum um ýmsa þætti frv.

Mér er kunnugt um að talsverð vinna hefur farið fram til þess að sníða vankanta af frv. og ætla ég ekki að hafa mörg orð um frv. núna fyrr en mér hefur gefist tóm til að kynna mér það betur. En ég vil vekja athygli m.a. á einni grein sem var talsvert umdeild, þ.e. 12. gr., þar sem kveðið er á um heilsufarsskoðun á vinnustöðum. Þannig er að þessi lög sem hafa verið í gildi frá árinu 1980 hafa hvað þetta snertir aldrei verið framkvæmd. Í lögunum frá 1980, 67. gr., er ákvæði þar sem kveðið er á um slíka skoðun og er þá gert ráð fyrir að heilsugæslustöðvar sinni því verkefni.

Síðan hefur talsvert verið tekist á um það hvernig eigi að haga slíkri skoðun og menn hafa leitað fanga víða um lönd og horft til þess sem gerist með öðrum norrænum þjóðum þá sérstaklega. Í Finnlandi hefur sú leið verið farin að taka slíka þjónustu út á markað og fá fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu til að sjá um heilu vinnustaðina. Það sem síðan hefur gerst þar er að fyrirtækin hafa smám saman verið að færa sig upp á skaftið, þ.e. þessi heilsufarsfyrirtæki og prívatspítalar, og gert samninga við vinnustaði um að sinna allri heilsugæslu inni á vinnustaðnum. Ríkið hefur reynt að stuðla að þessari þróun fyrir sitt leyti með skattafslætti og öðru slíku.

Málflutningurinn hefur verið á þá lund að segja við fyrirtækin: Það er ykkar hagur að fólki líði vel í vinnunni og sé heilt heilsu. Það er ykkar hagur að fólk sé ekki að fara úr vinnu til að leita læknis og þess vegna er það ykkar hagur að gera samninga við heilsufarsfyrirtæki og við fyrir okkar leyti komum þá sífellt stærra hópi út úr biðröðum hinnar almennu heilsugæslu. Í Finnlandi má segja að þróast hafi tvenns konar heilbrigðisþjónusta, annars vegar fyrir vinnumarkaðinn og hins vegar fyrir aðra. Biðraðirnar eru enn fyrir hendi. Þar eru þeir sem eru atvinnulausir, aldraðir, börnin, heimavinnandi o.s.frv. og eru ekki allir sáttir við þá þróun en þetta hefur að nokkru leyti verið að eiga sér stað í Finnlandi.

Í Noregi hins vegar hefur verið valin önnur leið og einnig að ég best veit í Danmörku. Þar hafa menn einskorðað þetta heilbrigðiseftirlit á vinnustöðunum við það sem snertir vinnustaðinn sjálfan og ekki heilbrigðisþjónustu að öðru leyti. Það er sú leið sem farin er í þessu frv. og ég er mjög sáttur við það. Ég sé í athugasemdum um 12. gr. frv. að lögð er áhersla á þennan þátt. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þess ber að gæta að hér er einungis átt við heilsufarsskoðun sem tengist starfsskilyrðum starfsmanna en ekki almenna heilsugæslu vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda. Starfsmenn leita eftir sem áður til þeirrar heilsugæslustöðvar sem þeir tilheyra eða til heimilislæknis með almenna heilbrigðisþjónustu.``

Hins vegar kemur ekki eins skýrt fram og ég taldi vera í fyrra frv. að ætlunin sé að fara með þessa þjónustu úr hinni almennu heilsugæslu. Ég kann eiginlega betur við þann tón sem núna er kominn í lagagreinina hvað þetta snertir því það mundi án efa gerast eins og gerst hefur þegar þjónusta af þessu tagi hefur verið einkavædd, að þá verða það örfá fyrirtæki sem sérhæfa sig í viðkomandi starfsemi og slá sér síðan niður á suðvesturhorninu. Það þekkjum við úr raforkugeiranum þar sem skoðunarstofurnar svonefndu --- ég held að þær séu tvær eða þrjár talsins núna, ef þær eru þá það margar, allar á suðvesturhorninu --- senda síðan með ærnum kostnaði sérfræðinga sína um allt land til þess að sinna hlutverki sínu.

Síðan er hitt náttúrlega að fólk vill hafa sitt prívatlíf og vera frjálst og óháð atvinnurekandanum hvað þetta snertir. Það vill eiga sjúkdóma sína og lækningu við sinn lækni, sína heilsugæslustöð eða sjúkrahús eftir atvikum en ekki vera háð duttlungum atvinnurekandans hvað þetta snertir. Ég legg áherslu á að ég tel þann farveg sem þeir eru að móta þarna heppilegan, gott ef ekki heppilegri en mig minnir að hafi verið í síðasta texta.

Þarna eru ýmis atriði sem snerta vinnutíma og tekið er á ýmsum greinum sem varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Það þarf að fara mjög rækilega yfir frv. og að sjálfsögðu leita í smiðju verkalýðssamtakanna sem þó munu hafa komið eitthvað að endurskoðun á frv. En það getur stundum borgað sig að flýta sér hægt og gefa sér betri tíma eins og gert var varðandi þetta frv. Ég hef þó að sjálfsögðu fyrirvara á endanlegri afstöðu minni og mun hlusta grannt eftir því sem sérfræðingar verkalýðssamtakanna segja um frv.