Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:38:31 (6092)

2002-03-12 18:38:31# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það frv. til laga sem hæstv. samgrh. hefur hér fylgt úr hlaði og lagt var fram á síðasta þingi vil ég minna á að hluti af því, sem reyndar er svo settur fram í þessu frv., var kallaður til baka. Þá fengum við sem sitjum í samgn. bréf frá hæstv. samgrh. þar sem sagði m.a., með leyfi forseta, varðandi það að ákveðið var að draga þann hluta sem hér er út úr frv.:

,,Ástæðan er m.a. sú að ákvæði frv. tengjast að nokkru leyti kjaradeilu sjómanna á fiskiskipum. Í ráðuneytinu hafa verið óformlegir fundir með þeim aðilum sem að málinu koma en ekki hefur fundist viðunandi lausn.``

Þess vegna vil ég leyfa mér, herra forseti, að spyrja hæstv. samgrh. sem flytur þetta frv., sem m.a. að hluta fjallar um fækkun stýrimanna í ákveðnum útgerðarflokkum og vélstjóra líka, hvort þessi viðunandi lausn sem getið er um í bréfinu frá 26. apríl í fyrra, hafi fengist og hvort viðkomandi stéttarfélög sjómanna séu orðin sátt við frv. eins og það liggur hér fyrir.