Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:32:17 (6103)

2002-03-13 13:32:17# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hafði vænst þess að hæstv. viðskrh. yrði hér viðstödd og hafði gert henni boð um það sem hún féllst á. Ég sé að hæstv. forsrh. er hér og ég ímynda mér að hann geti tekið á árum í stað hæstv. viðskrh.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs, herra forseti, er að engum duldist að í aðdraganda aðalfundar Íslandsbanka stigu ýmsir stórir hákarlar í viðskiptalífinu lítt geðslegan dans í kringum bankann. Ég tel að það sé ákaflega óæskilegt ef lagaumhverfi okkar er með þeim hætti að öflugir aðilar geta brotist til ráðandi áhrifa í fjármálastofnunum, ekki til þess að ávaxta sitt pund heldur beinlínis til þess að treysta völd sín í óskyldum greinum atvinnulífsins. Atburðarásin í kringum aðalfundinn sýndi að þetta er í reynd hægt. Þetta undirstrikar það sem hæstv. forsrh. hefur margsinnis sagt að dreifð eignaraðild og dreifð áhrif í fjármálastofnunum eru ákaflega æskileg.

Hæstv. viðskrh. hefur hins vegar nýlega sagt að ekki sé hægt að setja lög sem takmörkuðu stærð eignar í bönkum af því að þau brytu gegn 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. Ég vil af því tilefni benda á, herra forseti, að álit ESA sem ráðherrann byggir á sagði að takmörkun eignaraðildar væri í sjálfu sér lögmætt markmið en Norðmenn sem álitið beindist að hefðu ekki sýnt fram á að nægilegs meðalhófs væri gætt.

Dreifð áhrif má hins vegar tryggja með öðrum hætti, herra forseti. Hægt væri með lögum að mæla fyrir um að einn eða tengdir aðilar mættu ekki fara með meira en t.d. 10% eða 15% af atkvæðamagni í fyrirtækinu á aðalfundi. Þetta takmarkar ekki möguleika á frjálsum fjármagnsflutningum. Þarna er því gætt meðalhófsins sem eftirlitsstofnunin kvað á um og þetta mundi því samræmast samningnum um EES. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. sem hér er staddur og hefur sýnt mikinn áhuga á því að koma á einhvers konar lögum og takmörkunum á eignarhaldi í bönkum hvort hann telji ekki að hákarladansinn í kringum Íslandsbanka hafi sýnt fram á nauðsyn þess að setja lög sem með þessum hætti tryggja dreifð áhrif í fjármálastofnunum.