Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:38:52 (6106)

2002-03-13 13:38:52# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Vakin er athygli á nauðsyn þess að tryggja dreifða eignaraðild í fjármálalífinu. Tilefnið er aðalfundur Íslandsbanka en þar voru uppi getgátur um að aðilar úr viðskiptalífinu í markaðsráðandi fyrirtækjum hefðu viljað treysta sinn hlut í bankanum og til hvers? Jú, til þess að ráða betur stefnu bankans og hugsanlega einnig til að treysta tök sín á atvinnulífinu. Samansúrruð völd í framleiðslu og vörudreifingu annars vegar og í fjármálalífinu hins vegar getað skapað þá hættu að fjármálastofnanir landsins verði notaðar í þröngu eiginhagsmunaskyni og þá hugsanlega almannahagsmunum.

Herra forseti. Ég vil benda á að á borðum þingmanna liggur frv. frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálastofnunum landsins. Við leggjum til að einstökum aðilum öðrum en ríkissjóði og skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum verði óheimilt að eiga meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka.

Nú hafa ýmsir tekið undir þetta sjónarmið og ég minnist þess að hæstv. forsrh. gerði það á sínum tíma. En ég minnist þess jafnframt að hæstv. viðskrh. telur að þetta stangist á við heilaga ritningu Evrópusambandsins. Ef þetta er álitamál í því samhengi, þá spyr ég: Er nú ekki kominn tími til að Íslendingar reyni að standa í lappirnar og láti alla vega reyna á það hvort Evrópusambandið ætlar að setja okkur stólinn fyrir dyrnar í þessu efni? Þess vegna vil ég taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hæstv. forsrh. að það þurfi þá að skoða sérstaklega og láta reyna á það hvort Íslendingar hafi fullveldi til að fara sínu fram í þessu máli.