Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:41:07 (6107)

2002-03-13 13:41:07# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þegar lagt var fram frv. á síðasta þingi um eftirlit með virkum eignarhlutum þá fylgdi því frv. mjög greinargóð greinargerð um þá kosti sem eru til staðar við þær aðstæður að reyna að koma fyrir takmarkaðri eignaraðild að fjármálastofnunum. Farið var yfir kosti og galla þess að takmarka aðildina og vissulega hefur það bæði kosti og galla. Það hefur þann kost að þannig er hægt að koma í veg fyrir óæskilega samþjöppun. Það hefur galla sem gætu verið þeir að það skerðir samkeppnisstöðu þessara fjármálastofnana og það gæti skert möguleika til hagræðingar og fleira mætti nefna. Þetta vildi ég segja í upphafi.

Síðan vil ég segja að það er ekkert álitamál að EES-samningurinn kveður á um að ekki skuli vera nein höft á þessu sviði á flutningi fjármagns. Hann kveður líka á um að ekki megi mismuna vegna þjóðernis. ESA hefur hafnað þeim takmörkunum sem Norðmenn hafa sett sem varða 10% skorður, ESA hefur hafnað þeim ákvæðum í lögum Norðmanna og það held ég að sé mikilvægt að komi fram.

Hvað varðar að takmarka atkvæðavægi, þá er fyrir fram erfitt að segja til um það hvernig dómur mundi falla í því máli en miðað við það sem ég hef sagt á undan þá held ég að það séu í sjálfu sér meiri líkur á því að dómur mundi falla okkur í óhag varðandi það atriði.