Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:09:41 (6120)

2002-03-13 14:09:41# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að halda því til haga að stjórnvöld hafa komið að því að styðja við bakið á fyrirtækjum á landsbyggðinni í þessum geira. Eftir að Íslensk miðlun fór halloka í sínum rekstri ákvað stjórn Byggðastofnunar að leggja til fé til þess að styðja við endurreisn fyrirtækja á þessu sviði á nokkrum stöðum á landinu, þar á meðal á Stöðvarfirði og Raufarhöfn, í Eyjafirði og á Vestfjörðum. Ég tel að opinberir aðilar hafi þar með sýnt hug sinn í verki og stuðning við þessa atvinnustarfsemi.

Ég vil sérstaklega taka fram vegna fullyrðinga sem komið hafa núna síðustu daga um skort á stuðningi við uppbyggingu á slíku fyrirtæki á Stöðvarfirði að Byggðastofnun lagði því félagi til bæði lánsfé og hlutafé. Ég hygg að ekki sé hægt að fara fram á meiri stuðning við uppbyggingu á atvinnustarfsemi á stað en þar var gert af hálfu stofnunarinnar sem ég tel að hafi haft full rök fyrir að gera. En ég tel líka að menn eigi að segja satt og rétt frá þegar greint er frá hlut opinberra aðila í því.