Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:11:58 (6122)

2002-03-13 14:11:58# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hygg að reynt hafi verið að vinna að því að flytja fjarvinnsluverkefni út á land. Vegna þess sem hv. 9. þm. Reykn., Sigríður Jóhannesdóttir, sagði áðan vil ég minna á að tekið var verulega á í því að flytja svörun við 118 til Akureyrar á þeim tíma þegar ég var samgrh. Síðan hefur verið athugað um að flytja svörun til fleiri staða, Egilsstaða, má ég segja, og til annarra staða einnig. Vil ég minna á í þessu sambandi að Seðlabankinn er með símsvörun á Raufarhöfn. Það hygg ég að heyri undir forsrn. Ég vil jafnframt minna á að ákvörðun hefur verið tekin um skönnun Alþingistíðinda á Ólafsfirði. Í athugun er einnig að símsvörun geti orðið á Stöðvarfirði.

Þegar unnið hefur verið að þessum málum veit ég að forsrh. hefur komið mjög fast að þeim og ýmsu öðru sem gert hefur verið á þessu sviði. En auðvitað er nauðsynlegt að standa betur að því að reyna að fjölga þessum verkefnum eins og kostur er og ég þykist sjá merki þess að hreyfing sé í þá átt.