Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:14:36 (6124)

2002-03-13 14:14:36# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Svo sannarlega er það dapurlegt hvernig til hefur tekist með flutning á fjarvinnsluverkefnum út um land eins og að var stefnt. Sérstaklega er það dapurlegt vegna þess að þetta verkefni var kynnt með svo miklum væntingum. Kannski er alvarlegasti hluturinn í þessu að það var kynnt með miklum væntingum án þess að nægilegur fótur væri fyrir því.

En ég vil líka vekja athygli á hversu mikilvægt er að standa vörð um þau störf og verkefni sem eru þar þegar og byggja þau upp og færa til þeirra aukin verkefni eða styrkja þau á einn eða annan hátt með stjórnsýslulegum aðgerðum, með lagalegum aðgerðum o.s.frv. Það er kannski málið. Þess vegna er svo dapurlegt að horfa nú á Íslandspóst segja upp fólki vítt og breitt um land, draga saman starfsemi sína, hætta með ákveðin verkefni og segja upp fólki. Landsbankinn er að loka útibúum og afgreiðslustöðvum vítt um land og segja upp fólki á stöðum þar sem mikil þörf er fyrir þessa þjónustu. Þessi þróun finnst mér líka alvarleg og á þessa þróun geta stjórnvöld líka haft áhrif.