Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:15:59 (6125)

2002-03-13 14:15:59# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur valdið vonbrigðum hve erfiðlega hefur gengið að flytja fjarvinnsluverkefni út á land. En þar sem það hefur verið reynt, á Raufarhöfn, símsvörun, á Akureyri, Hvammstanga, Siglufirði og víðar, hafa þessir hlutir gefist vel. Þess vegna á þessi reynsla, virðulegi forseti, að gefa okkur afl til að blása enn frekar í lúðrana og halda áfram.

Öll þessi verk, sem hafa þó í allt of smáum stíl verið flutt út á land, hafa gefist alveg prýðilega. Við eigum að halda áfram á sömu braut og fjölga störfum. Möguleiki er á að flytja störf í tugatali út á land. Reynslan sýnir okkur að þetta er gerlegt og reynslan á líka að sýna okkur að þetta sé praktískt. Það segir okkur reynslan á þeim fáu stöðum sem fjarvinnsluverkefni hafa verið unnin síðustu missiri og ár.