Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:19:11 (6128)

2002-03-13 14:19:11# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ræða síðasta hv. þm. tók eiginlega alveg steininn úr í þessari umræðu. Hann hélt því fram að tiltekinn stjórnmálaflokkur kynnti hlutina með miklum væntingum. En hv. þm. hefur ásamt stjórnarliðinu verið að tala um það í mörg ár að flytja verkefni út á land þó að lítið sem ekkert hafi orðið úr því. Að reyna síðan að kenna hv. þm. stjórnarandstöðunnar um að ekkert hafi orðið úr er sennilega frumlegasta hugmyndin í þessari umræðu.

Hins vegar er dálítið fróðlegt að skoða nokkrar yfirlýsingar hæstv. ráðherra, Davíðs Oddssonar, Halldórs Blöndals og Valgerðar Sverrisdóttur, um tilflutning verkefna út á land. Mér sýnist sem svo að lítið sem ekkert hafi orðið úr því nema að forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, lýsti því yfir 6. mars árið 2000 að það væri verið að flytja verkefni til Ólafsfjarðar, það væri búið að ákveða það. Líklega er veruleikinn sá að Stöðfirðingar þurfi að líða fyrir það.