Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:23:39 (6131)

2002-03-13 14:23:39# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef fengið góðar móttökur á Siglufirði, m.a. hjá hv. þm. forðum tíð. Ég minnist þess með mikilli ánægju. En við skulum átta okkur á því sem hér hefur verið að gerast. Við horfðum á það í áraraðir og áratugi að störfum úti á landi var að fækka og við horfðum á það, hvar sem við vorum í flokkum, að hvar sem menn reyndu virtist vera afskaplega erfitt að spyrna við, jafnvel þó að miklum peningum væri tímabundið dælt hér og hvar í starfsemi á landsbyggðinni með góðum vilja en kannski var það ekki alltaf mjög vel undirbúið. Þess vegna fylltumst við öll miklum krafti og von þegar við sáum að ný tækni gerði kannski að verkum að landið yrði allt eitt atvinnusvæði og það mundi gerbreyta öllu fyrir fólkið á landsbyggðinni. Þetta sáum við.

Menn fylltust mikilli bjartsýni og upp spruttu fyrirtæki eins og við þekkjum, kannski ekki nógu vel undirbyggð. Mörg okkar þóttust sjá að með þessum nýju fyrirtækjum og auknum vilja yrði gerbreyting á slíkum stöðum, atvinnulífið gæti fengið starfskrafta sem það sárlega vantaði og fólk gæti fengið störf við hæfi án þess að þurfa að flytja burt frá átthögum sínum ef það kysi að vera um kyrrt. Þetta sáum við allt fyrir okkur og töldum að nú væru að opnast miklir möguleikar fyrir landsbyggðina.

Þetta hefur ekki gengið eftir með þeim hætti. Hv. þm. nefndi eitt fyrirtæki sem hefur tekist þetta myndarlega en ég er sannfærður um að ekkert stórt muni gerast í málinu jafnvel þrátt fyrir viðleitni af hálfu hins opinbera fyrr en allt atvinnulífið sér sjálft árangur og gildi fyrir fyrirtækin í að nýta fólkið úti á landi gegnum hina nýju tækni. Fyrr en það gerist með allsherjarhreyfingu allrar þjóðarinnar, fyrirtækjanna, þá gerist ekkert stórt, jafnvel þó að við sýnum viðleitni í hinum opinberu störfum. Það er mikilvægast af öllu. Þess vegna er dæmið sem hv. þm. nefndi gott.