Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:25:50 (6132)

2002-03-13 14:25:50# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Nýlega kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins árið 2000. Þar kemur fram að á árinu 2000 voru starfandi 910 nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins en þær hafi verið 600 á árinu 1985 sem var tekið til samanburðar, þ.e. 52% fjölgun á þessu tímabili.

Embættið veltir því fyrir sér hvað valdi þessari fjölgun og vísar þar í ritgerð eftir Gunnar Helga Kristinsson háskólakennara. Hann nefnir þrjár ástæður:

Í fyrsta lagi að fjöldi nefnda kunni að endurspegla mikil áhrif þingsins innan stjórnsýslunnar og nefndarformið geti verið tæki til að takmarka ráðherravald. Ekki virðist því fyrir að fara því að í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Alþingi skipi í aðeins 2% nefnda, ráða og stjórna.

Í öðru lagi telur hann að mikill fjöldi nefnda kunni að endurspegla takmarkaða möguleika til að útdeila verkefnum til fastra stjórnsýsluaðila vegna smæðar stjórnsýslueininga, skorts á samhæfingu, takmarkaðrar sérþekkingar eða veikleika sveitarstjórnarstigsins. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að á bls. 39 í skýrslunni kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Að mati Ríkisendurskoðunar hefði líklega mátt leysa mörg þeirra verkefna sem þessum nefndum voru fengin innan stjórnsýslunnar án þess að nauðsynlegt hefði verið að skipa sérstaka nefnd til þess.``

Í þriðja lagi segir að nefndir gegni samstöðuskapandi hlutverki sem auðveldi störf embættismanna. Þær geti bæði stuðlað að samstöðu innan stjórnsýslunnar og með henni og þeim utanaðkomandi aðilum sem starfsemi hennar varðar mest.

Herra forseti. Ég tel mjög vafasamt að setja allt nefndarstarf undir einn hatt. Nefndarstarf getur vissulega verið mikilvægt. Það getur verið lýðræðinu mikilvægt og mikilvægt þekkingunni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því nema síður sé.

Ég vil hins vegar vekja athygli á ýmsum aðfinnslum og ábendingum sem fram koma hjá Ríkisendurskoðun. Ég vil biðja hæstv. forsrh. að svara þeim athugasemdum:

Í fyrsta lagi, varðandi utanumhaldið, kemur í ljós að í úttekt á 51 nefnd kom fram að 18% þessara nefnda hafi ekkert starfað á árinu og ekki skilað neinum árangri. Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að nefndum sé settur tímarammi. Þá vill það brenna við að nefndir eru sviptar verkefnum sínum án þess að þeim sé gert það ljóst. Þannig virðist vera samskiptaleysi og skortur á utanumhaldi um nefndastarf í stjórnsýslunni.

Hitt sem ég vildi nefna og beina til hæstv. forsrh. lýtur að þóknunum. Ég sé að tími minn er búinn og mun ég koma að því síðar þegar ég hef til þess færi. Þá ætla ég að ræða bæði um ofurlaunin og einnig um hinar vangreiddu nefndir.