Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:29:13 (6133)

2002-03-13 14:29:13# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. nefndi liggur skýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir, um nefndir, ráð og stjórnir sem störfuðu á vegum ríkisins á árinu 2000. Þessi skýrsla var tekin saman í ágætri samvinnu við ráðuneytin og stofnanir ráðuneytanna.

Það hefur vakið mikla athygli að nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkisins fjölgaði um 52% á milli áranna 1985 og 2000. Í þeim eigi sæti tæplega 4.500 manns og eru þá þeir sem sæti eiga í fleiri en einni nefnd margtaldir. Það er rétt að benda á að í samantekt Ríkisendurskoðunar eru taldar til allar nefndir, ráð og stofnanir hvert sem svo hlutverk þeirra er, hvernig sem þær hafa verið skipaðar, til hve langs tíma, hvort það er lögum samkvæmt eða ,,ad hoc`` eins og kallað er. Þannig eru próf- og nemaleyfisnefndir um 6% af nefndunum eða 910 nefndir. Sumir kynnu að halda að þetta væru nefndir á vegum ráðuneytanna, bitlinganefndir o.s.frv. en því fer auðvitað fjarri að svo sé um að ræða. Þessar próf- og nemaleyfisnefndir eru 910 nefndir, 6%, stjórnir og stofnana- og skólanefndir, bankaráð og þess háttar eru 21% af nefndunum. Úthlutunarnefndir um 5%, úrskurðar- og kærunefndir samkvæmt lögum um 6%, byggingarnefndir um 1%, ráðgjafanefndir um 4% og verkefnanefndir um 57%.

Þessi fjölgun nefnda, ráða og stjórna er þó ekki að fullu skýrð þótt Ríkisendurskoðun setji fram tilgátur í skýrslu sinni um hvað henni valdi. Vafalaust er einhverjum þessara nefnda, ráða og stjórna ofaukið og sú niðurstaða Ríkisendurskoðunar að 18% nefnda, ráða og stjórna skili ekki árangri, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem stofnunin leggur til grundvallar, gefur auðvitað fullt tilefni til að kanna hvort ekki sé óhætt að fara í að fækka nefndum, ráðum og stjórnum hjá ríkinu. Ríkisendurskoðun mun gera okkur nánari grein fyrir því. Við höfum óskað eftir upplýsingum um hvaða nefndir um er að ræða og hvernig á þessu standi þannig að menn hafi þann þáttinn fyrir framan sig. Til eru nefndir sem eiga ekki að hittast þó að það hljómi undarlega, t.d. sú nefnd sem til staðar er í stjórnkerfinu og á aðeins að hittast ef upp kemur stórkostleg vá í tilverunni, þá er hún kölluð saman. Við skulum vona að hún verði ekki kölluð saman.

Það má hins vegar líka gera ráð fyrir að fjölgun nefnda, stjórna og ráða skýrist einnig af því að viðfangsefni stjórnsýslunnar séu fleiri, flóknari og margþættari en áður. Jafnvel góður hlutur eins og valddreifing gæti verið ein af ástæðum þess að menn hafi skipað nefndir, látið fleiri aðila í þjóðfélaginu koma að málunum. Einnig er algengt að ýmsum hagsmunaaðilum og þeim sem mál varða sé gefinn kostur á að taka þátt í nefndastarfi, stefnumótun og undirbúningi og með þeim hætti tryggja það að sjónarmið komist á framfæri strax á undirbúningsstigi en ekki á síðari stigum. Ég hygg að reynsla manna sé sú að það sé til bóta, að fagleg og félagsleg þekking aðila komi fram sem allra fyrst á vinnslustigum.

Alþingi hefur vissulega ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum með margvíslegri lagasetningu sem kveður beinlínis á um að skipa beri nefndir ráð og stjórnir. Reyndar berast ráðherrum ríkisstjórnarinnar árlega margar ályktanir um að setja á stofn nefndir til að vinna að hinum aðskiljanlegustu málum. Það eru fyrirmæli héðan úr þinginu sem ég er ekki að finna að. En Ríkisendurskoðun setur fram í skýrslu sinni ýmsar ábendingar og þær eru helstar:

1. Að kannað verði betur hvort starfsmenn ríkisins eigi að fá greitt fyrir setu í nefndum.

2. Að halda þurfi betur utan um launakostnað vegna nefndarstarfa.

3. Að þóknananefnd verði falið að meta þóknanir fyrir önnur störf nefndar- og stjórnarmanna sem þeir inna af hendi fyrir nefndir eða stjórnir sem þeir eiga sæti í og teljast falla utan þeirra starfssviðs sem nefndar- eða stjórnarmenn.

4. Að metið verði hvort nauðsynlegt sé að í öllum tilvikum verði nauðsynlegt að starfrækja stjórnir í stofnum ríkisins og ég tel að það komi fyllilega til greina að fækka slíkum stjórnum.

5. Farið verði reglulega yfir starf nefndanna og athugað hvort ekki megi leggja einhverjar þeirra niður.

6. Einnig er mikilvægt að nefndum sé ávallt eða nær ávallt, eftir því sem hægt er, settur ákveðinn tímarammi og því síðan fylgt eftir að sá tímarammi sé virtur.

Ég tel að þessar ábendingar Ríkisendurskoðunar séu jákvæðar og menn í ráðuneytunum eigi að fara yfir það og eftir þeim eins og frekast verður kostur.

Það liggur ekki fyrir hvernig þóknanagreiðslur hafa þróast á því tímabili sem haft er til samanburðar í skýrslunni. Hins vegar liggur fyrir að laun embættismanna sem núna eru ákveðin af Kjaradómi og kjaranefnd taka mið af setu þeirra í nefndum, ráðum og stjórnum. Það hefur almennt færst í vöxt á síðari árum að gerðir séu heildarlaunasamningar við starfsmenn ríkisins þannig að laun þeirra byggist síður en áður, a.m.k. ekki í jafnríkum mæli, á nefndarþóknun, sérgreiðslum ýmiss konar og öðru slíku.

Varðandi aðra ábendingu Ríkisendurskoðunar þá tel ég fullvíst að ráðuneytin haldi svo vel um útgjöld vegna nefnda sem kostur er og almennt munu slík útgjöld verða bókuð á sérstaka lykla í ríkisbókhaldi þannig að auðvelt verði að fylgjast með þeim. Eins má ætla að ráðuneytin líti á það sem skyldu sína að halda ekki úti nefndum, ráðum og stjórnum að óþörfu og hljóti að fylgjast mjög vel með framþróun þeirra.

Eins og ég segi, tel ég þær ábendingar sem hafa komið fram í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar mjög jákvæðar og sjálfsagt að ráðuneytin, í góðu samráði við Ríkisendurskoðun og eftir atvikum við þá aðila sem að málinu koma, til að mynda Alþingi sjálft, fari ofan í málið í framhaldi af þessum ábendingum. Eins og ég segi hefur ríkisendurskoðandi tekið að sér að vinna þetta mál frekar þannig að menn hafi meira í höndunum um þær nefndir sem þarna er mest fjallað um.