Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:35:08 (6134)

2002-03-13 14:35:08# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni þessa fsp. Ég hef margsinnis rætt skýrslur Ríkisendurskoðunar á Alþingi, ekki bara þá skýrslu sem hér er sérstaklega verið að spyrja um heldur almennt.

Um ábendingar stofnunarinnar varðandi eitt og annað sem betur má fara almennt er þetta að segja: Ég tel að margar athugasemdir í skýrslum Ríkisendurskoðunar séu þannig vaxnar að þær knýi beinlínis á um eftirfylgni Alþingis og ráðuneyta sem í hlut eiga hverju sinni. Því hvet ég, og skora í rauninni á hæstv. forsrh., að beita sér fyrir því sem fyrsta skrefi, í samráði við forseta Alþingis, að fela á beinan hátt með fyrirskrifuðum verklagsreglum viðkomandi starfsnefndum þingsins í hverju tilviki að álykta og fylgja eftir þeim leiðréttingum sem þörf er á.

Vel að merkja, oftast er eftirfylgninnar þörf, virðulegur forseti.