Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:45:42 (6143)

2002-03-13 14:45:42# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Nefndastarf getur verið mikilvægt fyrir lýðræðið og fyrir þekkinguna, verkfæri lýðræðisins eins og hæstv. menntmrh. orðaði það. Þetta er alveg rétt og þess vegna er mjög mikilvægt að nefndastarf sé jafnan markvisst og utanumhald gott. Að þessu vék ég í fyrri ræðu minni.

Nú ætla ég að koma að fjármálaþættinum. Sumar nefndir eru ólaunaðar og er beinlínis kveðið á um það í lögum að þær skuli ekki vera launaðar. Það á t.d. við um starfsgreinaráðin. Nú munu vera starfandi um 14 starfsgreinaráð. Í þeim sitja 7--8 manns að jafnaði og gert er ráð fyrir því að Samtök atvinnulífsins og þar á meðal verkalýðshreyfingin standi straum af kostnaði við þessa fundi. Þetta getur að mínum dómi leitt til þess að samtök og sérstaklega fjárvana samtök forgangsraði í samræmi við fjárhagslegar byrðar sem nefndastarf getur kallað á, og einnig getur þetta komið landsbyggðinni í koll ef ferðakostnaður er mikill og Samtök atvinnulífsins þurfa að standa straum af honum. Þetta er nokkuð sem ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. forsrh. á.

Hitt atriðið varðar ofurlaun nefndanna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að utanumhald um launakostnaðinn þurfi að vera miklu betra og brögð séu að því að nefndarmenn ráði sjálfa sig sem sérfræðinga og kaupi auk þess rándýra sérfræðiþjónustu. Við minnumst þess þegar við ræddum svar hæstv. forsrh. um einkavæðingarnefndina þar sem menn voru á tímakaupi upp á 5.500 kr. og borguðu sér líka sérfræðitaxta þannig að dæmi voru um að einn og sami maðurinn tæki tæpar 5 millj. kr.

Voru þessi launakjör rædd við ráðherranefndina þar sem Sjálfstfl. og Framsfl. eiga fulltrúa? Var þetta með samþykki þeirrar nefndar?