Smávirkjanir

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:19:15 (6158)

2002-03-13 15:19:15# 127. lþ. 97.4 fundur 424. mál: #A smávirkjanir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp og jafnframt hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Hún kom m.a. inn á að í undirbúningi væri frv. sem lagt yrði fram á næstu dögum þar sem fjallað er um niðurgreiðslur vegna húshitunar og að hugsanlega ættu þeir sem reka smáveitur eða smávirkjanir kost á að sækja þar um að sama skapi og orkuveiturnar stóru. Þá er spurning mín til hæstv. ráðherra: Á þetta líka við þegar um er að ræða sölu á orku til sumarbústaða?

Nú er í einstaka tilvikum, eins og í Lækjarhvammi á Laugarvatni, um að ræða einstakling sem hættur er búskap, rekur virkjun, selur eða leigir út land fyrir sumarbústaði og vill gjarnan framleiða rafmagn fyrir þá bústaði sjálfur, m.a. til húshitunar. Gæti verið um niðurgreiðslu að ræða þó að ekki sé um sölu á rafmagni til heilsársíbúðarhúsa að ræða heldur sumarbústaða?