Smávirkjanir

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:21:42 (6160)

2002-03-13 15:21:42# 127. lþ. 97.4 fundur 424. mál: #A smávirkjanir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Þess má geta að meðalstórt kúabú greiðir á ári 300--500 þús. kr. í rafmagn. Með einkarafstöð gæti sá kostnaður sparast og möguleikar skapast til að selja umframorku inn á netið eða nýta aflið til annarrar starfsemi.

Það er ljóst að stofnkostnaður vegna lítilla orkuvera er töluverður en hins vegar er rekstrarkostnaður óverulegur og endingartíminn langur. Af þeim sökum er mikilvægt að bændur eða aðrir sem hafa hug á að koma upp virkjunum hafi aðgang að lánsfjármagni á sambærilegum kjörum og við uppbyggingu bújarða og þá er um að ræða lán til 30--40 ára með 3,3% vöxtum í stað 6,8% vaxta.

Það var mjög athyglisvert sem fram kom varðandi húshitunina, að raforkubændur gætu fengið niðurgreiðslu í tiltekinn tíma á móti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Það er ljóst að það gæti líka komið sér vel fyrir garðyrkjubændur þar sem rafmagnskostnaður yfir vetrarmánuðina er óheyrilega mikill og hefur staðið heilsárframleiðslu grænmetis fyrir þrifum. Það er hugsanlegt að virkjun bæjarlækja kunni að leysa þann vanda í einhverjum tilvikum.

Að lokum vil ég þakka fyrir þau svör sem ég hef fengið og ég veit að margir hafa hug á því að virkja bæjarlækinn.