Smávirkjanir

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:23:26 (6161)

2002-03-13 15:23:26# 127. lþ. 97.4 fundur 424. mál: #A smávirkjanir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að ég veit ekki hvernig bæjarlækirnir eru á Suðurlandi en á Norðurlandi teldist dálítið djarft að virkja bæjarlækinn. Það eru aðeins meiri vatnsföll sem þarf til en ég kann samt vel að meta þetta orð.

Ég þakka áhugann sem hér kemur fram á þessum málaflokki. Reyndar var mér kunnugt um að hv. þm. hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga. Ég talaði kannski eitthvað óskýrt áðan þegar ég talaði um niðurgreiðslurnar en meiningin er sú að þeir raforkubændur sem framleiða raforku fyrir eigin notkun fái þessar niðurgreiðslur eins og hver annar vegna þess að rökin eru þau að þeir geti hvort sem er selt inn á netið og keypt aftur út af netinu.

Ég er alveg sammála því sem kom fram áðan, að auðvitað erum við fyrst og fremst að tala um það að einstaklingar framleiði til eigin notkunar vegna þess að það er hagkvæmast í málinu. En það er líka vonandi hagkvæmt að selja umframorku inn á netið. Það þarf að vera gerlegt og mikilvægt að skapa grundvöll til að svo geti orðið.

Eins og þetta hefur verið fram að þessu veit ég að ýmsum hefur fundist fyrirgreiðslan nokkuð takmörkuð í sambandi við að fara út í framkvæmdir sem þessar. Auðvitað höfum við verið að reyna að móta reglur og koma okkur niður á skynsemi í sambandi við aðstoð og fyrirgreiðslu en það er starfandi stýrihópur sem skipar fulltrúa frá þeim aðilum sem þarna koma að málum. Það vantar reyndar líka aukið fjármagn, t.d. fyrir Orkustofnun, til að veita meiri ráðgjöf en þeir hafa gert fram að þessu en ég veit að vilji er fyrir hendi þar og við munum leitast við, í tengslum við fjárlög næsta árs, að standa betur að málum en fram til þessa.