Útibú Matra á Ísafirði

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:25:40 (6162)

2002-03-13 15:25:40# 127. lþ. 97.5 fundur 499. mál: #A útibú Matra á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Matvælaiðnaður og aukin úrvinnsla á hráefnum, auðlindum okkar Íslendinga, er kannski einn okkar mikilvægasti atvinnuvegur og þróunarverkefni sem við stöndum frammi fyrir og árangur okkar í efnahagsmálum byggir á.

Þannig er að stofnað var fyrirtækið Matra, sem er samstarfsverkefni um matvælarannsóknir á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar til að þróa matvælaiðnað og vera fyrirtækjum til ráðuneytis um verkefni á því sviði. Þetta fyrirtæki fór í gang árið 1998 og 1. sept. árið 2000 var stofnað útibú á Ísafirði til að vinna að þróun matvælaiðnaðar og vera fyrirtækjum til ráðgjafar þar. Í fyrstunni var þetta hugsað sem tveggja ára verkefni og að þeim tíma liðnum skyldi staðan metin.

Þetta fyrirtæki fór í gang á Ísafirði. Við það voru bundnar miklar væntingar. Verkefnin urðu fljótt næg. Ráðinn var prýðisstarfsmaður sem þekkti vel til staðhátta og starfsemin var fyllilega eftir væntingum fyrsta árið. Kom því mjög á óvart haustið 2001 þegar tilkynning barst um að fyrirhugað væri að loka þessari starfsemi á Ísafirði í nóvember á síðasta ári. Síðan kom þó ákvörðun um að útvega fjármagn til að það mætti reka eitthvað fram á næsta ár. En 1. feb. í ár var þessari starfsemi lokað og starfsmaðurinn sem hafði starfað þarna og byggt upp starfið réði sig í aðra vinnu.

Virðulegi forseti. Á Ísafirði er verið að byggja upp þjónustukjarna á sviði rannsókna og verkefna á þessu sviði, svo sem frá Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þess vegna þótti kjörið að byggja þarna líka upp verkefni á sviði matvælarannsókna eins og þarna fór í gang.

Það er hörmulegt til að vita að úthald hins opinbera, úthald þeirra sem efna til verkefna sem fyllileg þörf er fyrir og brýn og gæti átt þarna framtíð, er svo lítið að þessu er lokað nánast innan árs frá því að það fer í gang. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. iðnrh.:

1. Hvernig samræmist lokun útibús Matra á Ísafirði stefnu stjórnvalda í byggðamálum og málefnum Vestfirðinga sérstaklega?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útibú Matra á Ísafirði verði þegar í stað opnað að nýju og því tryggður öruggur og sjálfstæður rekstrargrundvöllur, a.m.k. í nokkurn reynslutíma, svo sem fimm ár?