Útibú Matra á Ísafirði

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:35:32 (6166)

2002-03-13 15:35:32# 127. lþ. 97.5 fundur 499. mál: #A útibú Matra á Ísafirði# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó mér finnist þau vera mjög rýr. Það er ekki svo að hér hafi verið greitt niður starf ár eftir ár. Það er rangt í þessu tilviki. Stefnt var að a.m.k. tveggja ára þróunarverkefni og á þessum tveimur árum var gert ráð fyrir því að sjálfsaflafé nægði fyrir um helmingi rekstrarkostnaðar. Það hafði tekist og ríflega það. Væntingar um sjálfsaflafé voru og fyllilega samkvæmt þeim áætlunum sem lagt var upp með. Þess vegna er svo dapurlegt að þetta verkefni sem var fyrirhugað til tveggja ára og hefur gengið vel var blásið af eftir eitt ár. Mér finnst það bara óafsakanleg framkoma.

Það er erfiðara að ná boltanum upp aftur þegar hann hefur einu sinni dottið niður eins og í þessu tilviki. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og Alþingis í byggðamálum er einmitt lögð áhersla á að efla rannsóknir og þróunarstarf tengt atvinnuvegunum úti í byggðum landsins. Á Ísafirði er verið að byggja upp kjarna til að takast á við það. Mér finnst afar lágkúrulegt að ekki skuli vera hægt að bjarga þessu þó að vantað hafi 1 eða 2 millj. til þess að hægt hefði verið að halda þessu starfi áfram eins og að var stefnt, ekki síst í ljósi þess að allar áætlanir sem farið var í gang með stóðust og fyllilega það. Úthaldsleysi stjórnvalda var þarna ljónið á veginum.

Nú finnst Vestfirðingum þeir vera hlunnfarnir og hagur þeirra ekki gerður stór í væntanlegri byggðaáætlun og sömu dagana kemur tilkynning um lokun Matra. Því finnst mér, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra eigi að gefa miklu ákveðnari svör um að þetta verði sett í gang á ný af fullum krafti.