Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:52:21 (6175)

2002-03-13 15:52:21# 127. lþ. 97.6 fundur 536. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tel mig tilknúna til að lesa fyrirspurnina sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001 ...?``

Hversu mörg störf? Ég bið hv. þingmann að meta það einhvers að heil stofnun var flutt og gera ekki lítið úr því að ég hafi nefnt Byggðastofnun í þessu sambandi.

Mér er eiginlega efst í huga á þessari stundu að það er auðveldara um að tala en í að komast. Þegar hv. þm. tala um að breyta þurfi hugarfari spyr ég: Efast einhver um að ég vilji gera þetta? (KLM: Hvað er þá að?) Ég varð þess áskynja þegar ég kom í þetta ráðuneyti að þar er ekkert sérstaklega margt starfsfólk. Það er vel mannað hvað það varðar að þar er gott fólk en það er fátt fólk og við höfum barist fyrir því að reyna að fá að bæta við fólki eins og í iðnrn. Ég held að það séu ekki nein smáverkefni sem það ráðuneyti fæst við en sannleikurinn er sá að þetta fólk er yfirhlaðið verkefnum og ég kem ekki alveg auga á það hvaða verkefni það nákvæmlega eru, a.m.k. í ráðuneytinu, sem gætu verið unnin annars staðar því að fólk er að hlaupa úr einu í annað.

Hér var Seðlabankinn líka nefndur og auðvitað er mjög gott mál að fyrir hann skuli vera svarað á Raufarhöfn. Tvær stúlkur svara þar. Því miður er ég hrædd um að það sé bara eitt launað starf þannig að það er ekki víst að þetta sé sérstaklega hagkvæmt. (KLM: Tvöfalt.) Það eru tvær stúlkur sem vinna en það er spurning hvernig samningurinn er, ég held að hann sé ekki mjög hagstæður.

Ég var alveg eins og aðrir mjög spennt fyrir því að þetta gæti gengið og talaði fyrir því að fara út í flutning starfa út á land með fjarvinnslu en það var með mig eins og miklu fleiri að við vissum ekki alveg nákvæmlega um hvað þetta snerist.