Vöruverð í dreifbýli

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:54:48 (6176)

2002-03-13 15:54:48# 127. lþ. 97.7 fundur 517. mál: #A vöruverð í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KVM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Í greinargerð með þáltill. hæstv. iðnrh. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005 kemur orðið verslun aðeins tvisvar sinnum fyrir. Í fyrsta sinni er sagt að verslunin í mesta þéttbýli landsins greiði hærri laun en sú sem er á landsbyggðinni. Í hinu tilvikinu er þessi atvinnugrein nefnd í kaflanum um almenn búsetuskilyrði en þar segir, með leyfi forseta:

,,Byggðarlög þurfa að geta boðið upp á góða, aðgengilega og stöðuga uppeldis- og velferðarþjónustu, öflugt atvinnulíf, hæft menntað fólk og fjölþætta atvinnumöguleika, verslun og þjónustu.``

Herra forseti. Ég tek undir það að ein af meginforsendum þess að fólk búi ánægt við hlut sinn á landsbyggðinni er að auðvelt sé að nálgast brýnustu nauðsynjar á ásættanlegu verði. En þeir sem fylgjast með því sem er að gerast í landinu hafa tekið eftir því að smásöluverslun fer þar hrakandi. Á mörgum stöðum úti á landi þar sem áður voru ágætar verslanir finnast nú engar þar sem samkeppnisstaða þeirra var orðin svo lök. Við getum velt fyrir okkur hvers vegna margar þessara verslana hafa lagt upp laupana. Litlar einingar er jafnan svarið. Hinn stóri og sterki sigrar að lokum, segja menn og yppa öxlum. Við þessu er ekkert að gera, segja menn líka. En þegar betur er að gáð, herra forseti, má sjá að fleiri þættir vega þungt.

Herra forseti. Ég átti samtal við einn ágætan kaupmann í einu byggðarlagi úti á landi. Hann sagði að erfiðast fyrir matvöruverslunina þar væri hversu ójafn leikurinn væri. Þeir hjá Baugi og Kaupási fá svo mikinn afslátt hjá heildsölunum að það er óheilbrigt og hann nefndi sem dæmi að tveggja kg hveitipakkning út úr einum stórmarkaðnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu kostaði 70 kr. en hann þyrfti að kaupa þessa sömu pakkningu á 100 kr. hjá heildsalanum, og bætti hann við, þessi ágæti kaupmaður, að þetta væri bara eitt dæmi. Þessi mismunun virðist vera mest hjá íslenskum framleiðendum.

Margar siðferðislegar spurningar vakna þegar við sjáum hver aðstaða dreifbýlisverslunarinnar er, og við spyrjum hvort ríkisstjórnin hyggist koma að þessu málum, ekki aðeins vegna óheilbrigðrar og siðlausrar samkeppni heldur vegna ýmissa gjalda og kostnaðar sem dreifbýlisverslunin býr við. Þá má nefna t.d. tryggingagjaldið sem á að hækka um næstu áramót upp í 6%. Það er líka talað um vaxtakostnað sem þessi ágæti kaupmaður bar sig mjög aumlega undan. Hann talaði um vaxtaokrið sem eitt af hinum miklu vandamálum.