Vöruverð í dreifbýli

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:57:59 (6177)

2002-03-13 15:57:59# 127. lþ. 97.7 fundur 517. mál: #A vöruverð í dreifbýli# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Verslunarfyrirtæki sem reka sölustaði undir sama nafni á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni hafa tekið ákvörðun um að bjóða öllum viðskiptavinum sínum sömu viðskiptakjör með því að selja vörur sínar alls staðar á sama verði. Dæmi um slíka starfsemi má finna á smásölumarkaði með matvörur, byggingarvörur, eldsneyti, áfengi og lyf. Á þennan hátt hefur þróun verslunar stuðlað að lægra vöruverði á landsbyggðinni.

Mér er kunnugt um að hagsmunaaðilar í verslun eru að undirbúa könnun á vörustjórnunarkostnaði hér á landi með samanburði við nágrannalönd. Jafnframt er unnið að stofnun vörustjórnunarfélags sem hefði að markmiði að efla samstarf smásala, birgja og framleiðenda um að lækka kostnað við vörustjórnun. Talið er að þarna megi spara háar upphæðir ef vel tekst til, og eigi að koma bæði rekstraraðilum og neytendum til góða.

Aðilar í verslun og fulltrúar neytenda hafa ítrekað hvatt yfirvöld til að endurskoða smásöluverslun léttvíns og bjórs með það í huga að veita aðilum í verslun og viðskiptum möguleika á að taka að sér smásöluverslun með þessa vöruflokka. Bent hefur verið á að slíkt gæti stuðlað að styrkingu verslana á landsbyggðinni þar sem sölustaðir ÁTVR eru nú dreifðir. Sjálfsagt er að líta á þessar tillögur eins og aðrar sem orðið gætu til að styrkja verslun á landsbyggðinni.

Á árum áður komu upp hugmyndir um það að ríkið styrkti með beinum fjárframlögum verslun á afskekktum stöðum en frá slíkum hugmyndum var horfið og ekki eru áform um að styrkja dreifbýlisverslun með beinum fjárframlögum enda verður að hafa í huga, eins og að framan segir, að vöruverð á landinu öllu hefur mjög jafnast frá því sem áður var.

Sl. haust skipaði samgrh. nefnd til að fjalla um flutningskostnað á landsbyggðinni. Tilefni þess að nefndin var skipuð er sú staða sem upp er komin vegna verulegrar hækkunar á flutningskostnaði fyrirtækja sem starfa á landsbyggðinni. Á þessu stigi er of snemmt að segja til um hver niðurstaðan af þessu starfi nefndarinnar verði og hvort tillögur komi fram er leiða muni til betri rekstrarskilyrða dreifbýlisverslunar.