Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:15:10 (6187)

2002-03-13 18:15:10# 127. lþ. 97.10 fundur 500. mál: #A húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:15]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um hvað líði ákvörðun um greiðsluþátttöku heilbrigðiskerfisins í húðflúrsmeðferð í kjölfar aðgerðar vegna brjóstakrabbameins. Um það er að ræða að sumar konur sem lenda í að greinast með brjóstakrabbamein þurfa að láta fjarlægja brjóstið og síðan gangast undir aðgerðir til endursköpunar brjóstsins. Er þetta unnið af lýtalæknum og eftir fremsta megni reynt að endurskapa eðlilegt útlit.

Að lokinni meðferð lýtalæknanna hafa stundum komið fram óskir um lagfæringu á vörtubaugunum með húðflúri þannig að sem eðlilegustu útliti verði náð að nýju. Erindi af þessum toga hafa áður borist til Tryggingastofnunar sem sýnt hefur máli þessu fullan skilning og talið það bæði mikilvægt og til hægðarauka að láta húðflúra vörtubauginn í stað þess að beita skurðaðgerð með húðflutningi. Hins vegar hefur Tryggingastofnun talið að fram til síðustu breytinga á almannatryggingalögunum hafi lögin ekki heimilað greiðslu af þessum toga þar sem meðferð hjá húðflúrurum hafi hvergi verið að finna í heimildum almannatryggingalaga eða reglum byggðum á þeim. Hefur stofnunin því talið sér algerlega óheimilt að taka þátt í slíkum kostnaði.

Húðflúrarar eru ekki heilbrigðisstétt og hafa ekki samninga við Tryggingastofnun. Ég hef hins vegar fullan skilning á þessu máli og ég hef því ákveðið að beina þessu erindi til hinnar nýstofnuðu samninganefndar með ósk um að hún skoði þetta mál ofan í kjölinn og kanni möguleika á því hvort unnt sé að mælta þessum óskum. Ef slíkt er hægt þá kæmi það að mínu viti helst til sem hluti af störfum lýtalæknis.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi að einhverju leyti svarað fyrirspurn hv. þm. með þessum upplýsingum.