Rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:23:46 (6191)

2002-03-13 18:23:46# 127. lþ. 97.11 fundur 515. mál: #A rekstur vistheimilisins að Gunnarsholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um rekstur vistheimilisins í Gunnarsholti.

Starfsemi vistheimilisins í Gunnarasholti hefur verið nokkuð til umfjöllunar á síðustu mánuðum, m.a. vegna breytinga í mannahaldi og áherslubreytingum í starfseminni.

Ég get upplýst að vistmenn heimilisins eru um þessar mundir 32 talsins á ýmsum aldri, allt frá ungmennum til fullorðinna. Allir hafa þeir átt við ýmsa erfiðleika að etja, einkum tengda áfengis- og vímuefnavanda. Allir eru þessir einstaklingar með óskert ferðafrelsi og dvelja þarna af frjálsum vilja. Þeir geta því yfirgefið heimilið þegar þeim sýnist svo.

Af þessum 32 einstaklingum eru 18 haldnir geðsjúkdómum og 14 teljast með geðræna röskun samkvæmt upplýsingum frá geðsviði Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Síðustu tvö ár hefur 21 einstaklingur útskrifast frá vistheimilinu.

Rekstur heimilisins hefur nokkrum sinnum komið til almennrar umræðu. Rekstrarkostnaður á síðasta ári var 65 millj. kr. Þar af voru um 40 millj. vegna launa. Hefur reksturinn verið gaumgæfilega skoðaður með það í huga að nýta fjárveitingar sem best. Af hálfu stjórnenda er talið að draga megi nokkuð úr kostnaði og fækka ársverkum. Það er gert ráð fyrir að heimiluð ársverk verði níu og að almennri læknishjálp verði sinnt frá næstu heilsugæslustöð og sérfræðiaðstoð frá geðdeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þannig er áfram gert ráð fyrir að nýta öll rými heimilisins.

Einn þáttur í aðlögun vistmanna að eðlilegu lífi hefur verið að skapa þeim atvinnu og afþreyingu. Nokkuð erfiðlega hefur gengið að halda uppi atvinnu eftir að hellu- og fjósbitagerð lagðist af. Þá hefur einnig verið reynt að framleiða minjagripi til gjafa og sölu. En það hefur vart getað talist nægt viðfangefni og skortir því enn tilfinnanlega verkefni sem vistmenn geta sinnt. Haldið er uppi öflugri endurhæfingaráætlun þar sem vistmenn geta m.a. tekið þátt í heimilisstarfi, stundað útiveru og sund, sinnt húsdýrum og tekið þátt í öðru sem gerir þá hæfari til að koma út í samfélagið að nýju.

Breytingar sem hafa verið gerðar á starfsemi heimilisins undanfarna mánuði hafa vakið athygli bæði vegna þess að vistmenn hafa verið sýnilegri í daglegu lífi nágrannabyggðanna og einnig hafa breytingar í starfsmannahaldi verið til umræðu. Verður þó að telja að þessar breytingar hafi verið eðlilegur þáttur í almennu aðhaldi og starfsemi. Þess ber að geta að vistmenn fara allar ferðir í fylgd gæslumanns þegar þeir sækja verslanir og aðra staði í sveitarfélaginu.

Spurt er um endanlega framtíðarstefnu vistheimilisins. Hún hefur enn ekki verið mótuð en hún hefur tengst eins og kunnugt er umræðu um fjármögnun á rekstri Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Það hefur m.a. verið rætt hvort mögulegt væri að sameina þessa starfsemi einhvers konar annarri starfsemi á svipuðu sviði til að bæta nýtingu á vinnuafli og fjármunum. Endanleg ákvörðun um þessa framtíð hefur ekki verið tekin en ég undirstrika það sem ég sagði áður að ætlunin er að nýta öll rými áfram og ekki eru uppi áform um annað.

Ég vona að ég hafi svarað fyrirspurninni.