Framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:41:18 (6199)

2002-03-13 18:41:18# 127. lþ. 97.12 fundur 530. mál: #A framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Það er mjög mikið ánægjuefni að þetta mál skuli vera komið á skrið en framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands hafa verið forgangsverkefni þingmanna í Suðurlandskjördæmi í mjög langan tíma. Þetta er afar mikilvæg stofnun og einn stærsti vinnustaður á öllu Suðurlandi. Þetta er mjög knýjandi mál því að óviðunandi aðstæður eru á Ljósheimum og brýnt að leysa úr þeim.

Þarna er, eins og kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni, heilsugæslan að komast undir sama þak þannig að þetta er gríðarlega stór og mikilvæg stofnun sem vonandi verður hægt að ljúka á stuttum tíma.