Framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:44:31 (6202)

2002-03-13 18:44:31# 127. lþ. 97.12 fundur 530. mál: #A framkvæmdir við Sjúkrahús Suðurlands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:44]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Suðurl. hefur þetta mál verið á forgangslista þingmanna Sunnlendinga býsna lengi. Það að koma óskum okkar í framkvæmd --- vonandi verðum við ekki dæmd nákvæmlega út frá því hversu langan tíma þetta forgangsmál hefur tekið í afgreiðslu því að það er algerlega með ólíkindum.

Ég vil einnig þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir að koma þessu máli á skrið meðan hann gegndi stöðu framkvæmdarstjóra Sjúkrahúss Suðurlands. En það er algerlega ólíðandi, virðulegi forseti, að það skuli gerast við framkvæmd sem er mjög vel undirbúin af hálfu heimamanna og af hálfu ráðuneytis, að skrifað er bréf, síðasta bréfið af þó nokkuð mörgum, dags. 31. maí á síðasta ári, til samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir þar sem farið er yfir undirbúning verksins og það kynnt að mjög vel hafi verið staðið að málum. Hvenær barst svarið? Hvenær barst svar frá þessari þriggja manna nefnd sem virðist ráða því nákvæmlega hvenær farið er af stað vitandi það að þarna eru til 60 millj.? Það er undanþága á því húsnæði sem er í notkun fyrir aldraða. Ástandið er mjög slæmt. Nei, takk fyrir. Svarið berst ekki fyrr en um mánaðamótin desember/janúar. Menn tóku sér allan þann tíma til að heimila það að fara mætti af stað aftur. Þetta er algerlega ólíðandi þegar búið er að vinna grunnvinnuna, bæði af hálfu ráðuneytis og heimamanna. En þetta er forgangsverkefni þingmanna Sunnlendinga, eins og hér hefur heyrst, og við skulum vona að önnur verk okkar sem sett verða í forgang í framtíðinni, önnur stefnumál, fái skjótari afgreiðslu en þetta.