Aðstaða til fjarnáms

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 19:05:16 (6211)

2002-03-13 19:05:16# 127. lþ. 97.14 fundur 516. mál: #A aðstaða til fjarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og það að þegar séu hafnar viðræður við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum um að taka þetta verkefni að sér því að það er mjög mikilvægt fyrir þetta bæjarfélag sem hefur átt undir högg að sækja að efla möguleika heimafólks á því að stunda fjarnám.

Fyrr í dag, virðulegi forseti, var heilmikil umræða um fjarvinnslu. Í mínum huga er fjarnámið einhver mikilvægasta fjarvinnslan sem stunduð er á landinu. Það hefur sannarlega verið aukið á undanförnum árum en við getum gert enn betur. Ég held að í raun og veru séu möguleikarnir til þess að stunda fjarnám sú fjárfesting sem á eftir að skila landsbyggðinni mestu á komandi árum. Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega að hæstv. menntmrh. skuli hafa beitt sér í þessu nú þegar, og ég veit af samræðum sem ég hef átt við hann í gegnum tíðina að hann er mikill áhugamaður um að fjarnám verði eflt.