Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:32:25 (6215)

2002-03-19 13:32:25# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að í gær ákvað meiri hluti hv. iðnn. að afgreiða frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Í ljósi þeirra frétta sem hafa borist undanfarið um að Norsk Hydro vilji fresta ákvarðanatöku um byggingu álvers á Reyðarfirði er ekki forsvaranlegt að keyra málið í gegnum þingið með því offorsi sem lagt er upp með. Meiri hluti hv. iðnn. neitaði ósk um að kalla forsvarsmenn Norsk Hydro og hæstv. iðnrh. á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir stöðu málsins, en ég tel að það sé alger forsenda þess að hægt sé að taka afstöðu til þess.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera skýlaus krafa okkar alþingismanna að hæstv. iðnrh. upplýsi þingið um raunverulega stöðu málsins áður en afgreiðsla virkjunarleyfis fer fram. Einnig er nauðsynlegt fyrir þingið að fá fram skoðun hæstv. iðnrh. á því hvort ekki sé farsælt í þeirri stöðu sem upp er komin að hafa frumkvæði að því að fresta málinu þannig að þinginu gefist kostur á að vinna framtíðarstefnumótun í orkumálum í réttri röð.

Hv. Alþingi á eftir að fjalla um og afgreiða rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og ný orkulög hafa ekki litið dagsins ljós.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum í stöðu málsins í dag og krefst þess að málið verði tekið út af dagskrá og rætt frekar á grunni nýrra upplýsinga.