Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:35:50 (6217)

2002-03-19 13:35:50# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er eðlilegt að alþingismenn hafi áhyggjur af því að áætlanir um byggingu álvers á Reyðarfirði gangi ekki eftir eins og vænst var. Framkvæmdin hefur notið meirihlutastuðnings með þjóðinni. Ekki síst hefur verið víðtækur stuðningur við hana meðal verkalýðshreyfingarinnar. Þeir eru líka margir sem telja að þetta sé nauðsynleg innspýting í efnahagslíf okkar núna þegar greinilega harðnar á dalnum ef marka má nýjustu tölur um vaxandi atvinnuleysi.

En þó áætlanir um virkjanir og álver hafi verið unnar samhliða þá hefur legið fyrir að áður en framkvæmdaraðili álversins tekur sína ákvörðun, sem hefur verið áætlað að yrði 1. september næstkomandi, þá mundi virkjunarleyfi þurfa að liggja fyrir.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn. gerum ekki athugasemdir við störf nefndarinnar í þessu sambandi. Það er þannig að hlutverk Alþingis er að veita virkjunarleyfið eða gefa ráðherra heimild til veitingar slíks leyfis. Því er það verkefni okkar á vorþinginu, herra forseti, að gera það ef við ætlum að standa okkar plikt í málinu. Að því er nú unnið, væntanlega í þeirri von og trú að hinn aðilinn sé líka að vinna að því að uppfylla sínar skyldur í málinu.

Þannig sýnast mér málin einfaldlega standa, herra forseti, hverjar svo sem tilfinningar eða skoðanir mínar eða annarra þingmanna kunna að vera.