Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:49:38 (6225)

2002-03-19 13:49:38# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði gaman af því þegar hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, hafði orð á því að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason væri í fallegri skyrtu, svona ljósrauðri skyrtu sem minnir á það að rauði liturinn á hv. 3. þm. Norðurl. e. er farinn að fölna, svo ég hygg að honum hafi fundist að hann væri að horfa í spegil og sæi sjálfan sig í speglinum þegar hann sá skyrtu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar.

Annars er það svolítið merkilegt í sambandi við þessa umræðu að hér stendur upp þingmaður eftir þingmann og óskar eftir því við forseta Alþingis að ekki sé tekið á dagskrá mál sem afgreitt hefur verið úr nefnd. Auðvitað hlýtur það að vera skylda forseta Alþingis að afgreiða þau mál sem koma úr nefndum. Til þess er ætlast og ég ætla að vona að góðar og gagnlegar umræður verði um málið þegar það verður tekið fyrir því að ég heyri það hér og hef raunar oft heyrt áður að menn hafi mjög skiptar og ákveðnar skoðanir og upplýsandi. Ég hlakka því til umræðunnar um málið og mun gera það sem í mínu valdi stendur til að greiða fyrir því að það geti sem fyrst komið á dagskrá.