Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:51:05 (6226)

2002-03-19 13:51:05# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu minni áðan er uppi ný staða í málinu. Fréttir hafa borist af því að Norsk Hydro vilji fresta málinu og það er óheppilegt að hæstv. iðnrh. skuli ekki vera hér til svara.

Keyrslan á málinu hefur verið réttlætt með því að ekki sé tími til þess að bíða t.d. eftir umfjöllun um rammaáætlunina og nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Við erum með ný orkulög í umfjöllun í stjórnkerfinu og hvort tveggja er alger forsenda þess að við getum haldið áfram með svona mál. Þess vegna er það forkastanlegt ef hv. Alþingi sér sér ekki leik á borði ef um er að ræða ósk samstarfsaðilans væntanlega að gera nýja tímaáætlun, að það skuli ekki vera notað til þess að vinna faglega og vel að þessum málum til framtíðar með rammaáætlunina og ný orkulög.

Hv. þingmenn hafa verið sammála um það í ræðu að það sé æskilegt að slíkt sé gert, að þessi undirbygging eigi sér stað. En þeir hafa réttlætt keyrsluna á málinu með því að tímaáætlunin þurfi að standa. Annars verði ekki af framkvæmdum. Ef til vill eru málin þannig stödd núna að svigrúm er til þess að fara í faglega vinnu í öllum þessum málum á grunni rammaáætlunar og á grunni nýrra orkulaga sem er forsenda þess að við getum unnið þessi mál vel. Þess vegna, virðulegur forseti, kom ég hér upp og vildi ræða um störf þingsins og óskaði þess við hv. þingmenn að þeir sæju að sér í málinu og tækju það upp á nýjan leik á nýjum forsendum, á nýjum grunni, á þeim grunni sem við óskum öll eftir að vinna á.