Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 14:00:24 (6232)

2002-03-19 14:00:24# 127. lþ. 99.3 fundur 567. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu# þál. 8/127, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Ég mæli fyrir nál. utanrmn. um till. til þál. um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Jórdaníu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og hasjemíska konungsríkisins Jórdaníu sem undirritaður var í Vaduz 21. júní 2001.

Markmiðið með gerð þessa fríverslunarsamnings er einkum að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við Jórdaníu en Evrópusambandið og Jórdanía hafa lokið gerð fríverslunarsamnings sín á milli. Gerð samningsins er þáttur í viðleitni til að stuðla að viðskiptatengslum landa norðausturstrandar Miðjarðarhafs og Miðausturlanda við Evrópu og þróun í átt til fríverslunar um allt þetta svæði.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og er einróma í afstöðu sinni til málsins.