Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 14:08:53 (6235)

2002-03-19 14:08:53# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta samgn. Eins og hv. þm. Hjálmar Árnason gerði grein fyrir þá er um að ræða frv. til laga um samgönguáætlun þar sem í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Tilgangur laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til tólf ára skv. 2. gr. og fjögurra ára áætlun skv. 4. gr. innan ramma samgönguáætlunar.``

Hér er því verið að leggja til að þeir sem hafa komið að áætlunum um samgöngur í lofti, á láði og legi, samræmi áætlanir sínar og að búið verði til einhvers konar samgönguráð sem hafi það verkefni að skila samræmdri samgönguáætlun, bæði til lengri og skemmri tíma.

Þrátt fyrir að skila þessu minnihlutaáliti styð ég megintilgang frv., þ.e. að koma á samræmdri áætlun um samgöngur í landinu. Ég tel að það sé rétt stefnumótun og styð það. Reyndar má segja að slík áætlun og slík vinna sé löngu tímabær. Þeim tilmælum var einmitt beint til samgrn. í tengslum við alþjóðlega samninga um samgöngur og umhverfismál í samgöngum, að þar væri ein samræmd áætlun.

Það sem ég geri athugasemdir við og vil koma á framfæri ábendingum um eru þær áherslur sem lagt er upp með í þessu lagafrv., þ.e. um út frá hvaða forsendum skuli vinna samgönguáætlun. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Í samgönguáætlun skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu.`` --- Síðan kemur: ,,Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Þá skal í samgönguáætlun meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.``

Það er svo sem gott og blessað að taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar og ég styð það, en þarna er verið að segja að marka skuli stefnu fyrir allar greinar samgangna til næstu tólf ára. Og síðan er það rakið í einstökum liðum:

,,Í samgönguáætlun skal gera ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:

a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,

b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,

c. að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins.``

Það er í sjálfu sér eðlilegt að menn minnist á fjármagn við gerð samgönguáætlunar. Ljóst er að ekki verður ráðist í neinar samgöngubætur eða samgöngumannvirki án þess að til komi fjármagn. Það fjármagn verður að samþykkja sérstaklega á Alþingi, alveg sama hvers konar framkvæmdaáætlun eða hvaða viljayfirlýsingar liggja fyrir.

Það sem ég gagnrýni er að ekki skuli tekið tillit umhverfismála í þessum stefnumarkandi lagagreinum. Samgöngur eru einn stærsti þáttur umhverfismála okkar hér og í heiminum öllum, þ.e. hvaða stefna er mörkuð í samgöngumálum. Samgöngur hafa áhrif á mengun og marga umhverfisþætti. Ég tel að í hinum stefnumarkandi þætti laganna ætti að vera tilvísun til umhverfismála. Sömuleiðis erum við líka hér að vinna að stefnumörkun í öryggismálum og umferðaröryggismálum. Það verður því að teljast fyllilega réttmætt og ástæða til að inn í meginlagagreinina, þar sem verið er að tala um stefnumörkun, sé minnst á umferðaröryggi og umferðaröryggismál. Hér liggur fyrir á dagskránni í dag þáltill. um stefnumörkun í umferðaröryggismálum. Ég tel að það hefði átt að taka skipulega inn í stefnumörkunina.

Í nál. minni hlutans, sem ég stend að, er því lagt til að í lokamálslið 1. mgr. 2. gr., sem lýkur á að taka skuli tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur, sé einnig tekin inn stefnumörkun í umhverfismálum. Ég hef því lagt fram brtt. við þessa grein svohljóðandi:

Á eftir 2. málsl. 1. mgr. komi nýr málsliður er orðist svo: Samgönguáætlun skal vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum.``

[14:15]

Úr því að við erum að taka fram í þessari stefnumörkun að taka skuli tillit til forgangsröðunar við notkun fjármagns og mannafla er líka nauðsynlegt að fjármagnið og arðsemiskrafa fjármagnsins ein ráði ekki stefnumörkuninni heldur líka þau atriði sem lúta að umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum. Þau þarf að taka inn í lagatextann og seinni liður brtt. minnar fjallar um hverju skuli sérstaklega gera ráð fyrir í samgönguáætlun. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Við 2. mgr. bætist nýr stafliður er verði a-liður og orðist svo: að fylgt verði markmiðum sjálfbærrar þróunar við gerð áætlunarinnar.``

Við Íslendingar höfum samþykkt áætlun um sjálfbæra þróun í samgöngumálum og því er fráleitt að við tökum hana ekki inn í stefnumörkunina hér en horfum eingöngu, eins og hér er lagt til, á arðsemi fjármagnsins.

Í skýrslu starfshóps samgrn. og Vegagerðarinnar frá því í maí 2001, um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Á ráðstefnunni í Rio de Janeiro skrifuðu Íslendingar ásamt öðrum þjóðum heims undir viðamikla og metnaðarfulla framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í heiminum, sem ber heitið Dagskrá 21. Þar er talað um að greinar samfélagsins skuli þróast á sjálfbæran hátt. Það hefur í för með sér að í dag er líka talað um t.d. sjálfbærar samgöngur. Flestir telja að samgöngur í núverandi mynd séu ekki sjálfbærar.

Í þessari Dagskrá 21, dagskrá 21. aldarinnar, sem við höfum samþykkt að gera að okkar stefnumiðum, eru sett fram eftirfarandi sex markmið í samgöngum til að gera þær sjálfbærari, með leyfi forseta:

Heildstæð landnotkunarstefna og skipulag samgangna til að minnka eftirspurn.

Bættar almenningssamgöngur.

Hvatning til samgangna án vélarafls, þ.e. að fara leiðar sinnar fótgangandi eða á reiðhjóli.

Umferðarstýring, bætt nýting á almenningssamgöngum og viðhald á vegakerfi (samgöngukerfi).

Bætt upplýsingaflæði milli landa og innan landa.

Endurmat núverandi neyslu- og framleiðslumynsturs til að minnka orku- og hráefnisnotkun.``

Þetta eru þau stefnumið sem samþykkt voru í Ríó og Íslendingar skrifuðu undir að gera að sínum stefnumiðum.

Í dag er hugtakið sjálfbær þróun oft notuð sem markmið og aðferðafræði. Mikilvægt er að skilgreina hvað sjálfbær þróun í íslensku samfélagi merkir og hafa skýrt mótaða stefnu í þessum málum. Langtímaáætlun í samgöngumálum verður að fylgja markmiðum sjálfbærrar þróunar og það þarf að tryggja í texta laganna, annars er í sjálfu sér ekki tryggt að það verði haft að því leiðarljósi sem við höfum í samþykkt í alþjóðasamningum.

Í nóvember 1998 samþykktu forsætisráðherrar Norðurlandanna og pólitískir leiðtogar sjálfstjórnarsvæðanna yfirlýsingu um sjálfbær Norðurlönd. Í framhaldi af því hafa flest Norðurlandanna sett sér sérstaka umhverfisáætlun í samgöngumálum. Íslensk stjórnvöld hljóta einnig að setja sér umhverfisáætlun um samgöngur sem langtímaáætlun í samgöngumálum verður að fara eftir. Í skýrslu umhvrh. um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, framkvæmdaáætlun til aldamóta frá því í október 1996, kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og þar er þetta m.a. nefnt, með leyfi forseta:

,,Markmið með sjálfbærum samgöngum á Íslandi er að auðvelda hagkvæma nýtingu landsins í atvinnuskyni og að auðvelda okkur að njóta þess sem einstaklingar til útivistar og hagsældar án þess að rýra landgæði eða möguleika komandi kynslóða.``

Hvers vegna er þessi setning ekki sett í höfuðmarkmið laganna um samgönguáætlun úr því við höfum gengist undir þessar skuldbindingar sem ég held að við séum í raun öll sammála um að séu réttar og eðlilegar? Talað er um að draga skuli úr hvers konar rýrnun náttúrugæða, svo sem jarðraski, sjónmengun og losun gróðurhúsalofttegunda og að þessi markmið eigi að vera tilgreind í sjálfum lagagreinunum.

Samgrn. hefur sett sér markmið í umhverfismálum sem byggjast m.a. á rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem lagðar voru til grundvallar ríkisstjórnarsamþykkt 1995 um framkvæmdaáætlun í umhverfismálum. Í skýrslu nefndar um endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi segir m.a.:

,,Meginmarkmið samgönguráðuneytisins í umhverfismálum lúta að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar en ríkisstjórnin samþykkti framkvæmdaráætlun í umhverfismálum í október 1995. Þótt ekki verði skrifað undir Kyoto-bókunina að sinni mun ráðuneytið engu að síður einbeita sér að því að ná sem mestum árangri í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Ber þar helst útblástur CO2 en hann er verulegur af samgöngum á landi. Losun CO2 í samgöngum er þriðjungur af heildarlosun Íslands og af því er um 93% frá landsamgöngum.``

Herra forseti. Það er augljóst að samgöngur skipta meginmáli um það hvernig við stöndum við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í þessum málaflokki hvað lýtur að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Til að bregðast við þessum miklu vandamálum skipaði samgrh. starfshóp árið 1997 sem hafði það verkefni að koma með tillögur um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum um mitt síðasta ár og hefur ráðuneytið síðan unnið að nánari útfærslu þeirra. Ljóst er að ef ekkert verður að gert mun losun gróðurhúsalofttegunda aukast verulega á næstu árum og því brýnt að taka málið föstum tökum. Þær aðgerðir sem líklegar eru til að skila árangri eru þessar helstar. Ég vitna hér í markmið samgrn., með leyfi forseta:

,,Bæta þjóðvegakerfi landsins með því að auka bundið slitlag og stytta vegalengdir þar sem kostur er.

Bæta skipulag samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Bæta almenningssamgöngur í landinu, bæði í þéttbýli og í dreifbýli.

Huga að hertum reglum í innflutningi notaðra bifreiða.

Huga að skattlagningu bifreiða.``

Þarna hefur samgrn. í sjálfu sér sett sér markmið á þessu sviði. Því er ég þeirrar skoðunar að í frv. til laga um samgönguáætlun, eins og hér er verið að leggja fram, þ.e. lögum til langs tíma, verði að kveða skýrt á um að samgönguáætlun verði unnin í samræmi við alþjóðasamninga, yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum og þær yfirlýsingar sem við höfum skuldbundið okkur gagnvart á alþjóðavettvangi. Þess vegna ítreka ég, herra forseti, að ég tel að þessi þáttur eigi að koma inn í greinar frv., þar eigi ekki bara að nefna arðsemiskröfu. Þá tel ég að einnig eigi að taka aðra mikilvæga stefnumarkandi þætti inn.

Ég tel líka, virðulegi forseti, að taka eigi með byggðamálin. Fá atriði hafa eins sterk áhrif í byggðamálum og samgöngur. Hér á Alþingi samþykkjum við byggðaáætlanir æ ofan í æ, en síðan er minna um eftirfylgni. Það hefði litla þýðingu að ganga frá byggðaáætlun ef ekki er, í stefnumörkun laga um samgöngur, kveðið skýrt á um að þar beri að taka tillit til og fylgja byggðaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt að unnið skuli eftir. Við höfum einmitt rekið okkur á að mikið vantar á að þar fylgi athafnir orðum.

Ég leyfi mér hér til að vitna í till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árið 2002--2005 sem nú liggur fyrir Alþingi, en þar er mikilvægi almenningssamgangna ítrekað. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Góðar samgöngur eru algjör nauðsyn fyrir fólk og fyrirtæki og grundvöllur traustrar byggðar í landinu. Fólk sættir sig almennt ekki lengur við að búa í byggðarlögum þar sem ekki eru greiðar og öruggar samgöngur og nútímalegur atvinnurekstur þrífst ekki án góðra samgangna.``

Í byggðaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi er einmitt skýrt kveðið á um þetta. Þess vegna finnst mér að okkur beri skylda til að setja ákvæði sem lýtur að byggðamálum inn í texta frv. um samgönguáætlun. Standi þar einungis að í sértækum aðgerðum eigi að líta til hagkvæmrar notkunar fjármagns, eins og það er nú túlkað, mun einungis metin tímabundin arðsemi fjármagnsins sem bundið er í vegamálum. Það er svo sem góðra gjalda vert og sjálfsagt að horfa til þess en það getur einmitt gengið þvert á stefnumið í byggðamálum. Þess vegna tel ég, herra forseti, að inn í lagatextann eigi að taka að samgönguáætlun verði unnin með tilliti til gildandi byggðaáætlunar.

Ef við snúum okkur að umferðarörygginu getum við horft til mjög dapurlegra daga á þessu ári þar sem allt of mörg alvarleg slys hafa orðið í umferðinni. Fyrir Alþingi liggur einmitt þáltill. um sérstakt átak og áætlun í umferðaröryggismálum þar sem stefnt er að því að alvarlegum umferðarslysum fækki um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Það er því eðlilegt að markmið Alþingis í umferðaröryggismálum komi beint inn í lagatextann, þannig að ljóst sé að ætlunin sé ekki bara að samþykkja umferðaröryggisáætlun til ársins 2012, þar sem stefnt er að því að fækka alvarlegum umferðarslysum um 40%, án þess að taka það skýrt fram í lagaumgjörð um gerð samgönguáætlunar. Ef við ætlum að ná þessu markmiði verður að taka það inn. Það getur vel verið að til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur gætum við þurft að lækka hugsanlega arðsemiskröfu til fjármagnsins. Það er erfitt að reikna mannslíf til verðs. Þess vegna gætum við þurft að gera sitthvað sem ekki væri í fullum takti við mjög afmarkaða og einskorðaða skilgreiningu á því hvernig ætti að nota fjármagnið sem hagkvæmast. Þess vegna tel ég að umferðaröryggismálin eigi að koma inn í hina samræmdu samgönguáætlun og vera forsenda fyrir vinnu hennar.

Herra forseti. Eins og ég rakti áðan notfæra sér margir samgöngur. Góðar samgöngur eru mikilvægar fyrir atvinnulíf, viðskipti og verslun. En samgöngur eru líka einn mikilvægasti þátturinn í lífi og starfi hverrar fjölskyldu. (Gripið fram í: Hárrétt.) Já, það er hárrétt. Ekki síst til sveita --- segi ég þar sem hæstv. landbrh. gengur hér virðulega um salinn. Hvarvetna eru samgöngur snar þáttur í lífi hverrar fjölskyldu. En í frv. til laga um samgönguáætlun, lagaramma samgönguáætlunar, er hvergi minnst á þarfir fjölskyldunnar eða þá sýn á samgöngur sem menn hafa í daglegu lífi fjölskyldunnar.

Sama á við um áætlun sem er þó um margt ágæt, þ.e tillögur frá stýrihópi sem hæstv. samgrh. skipaði til að vinna að stefnumörkun í samgöngumálum frá árinu 2003--2014. Þar er heldur hvergi minnst á að samgöngumál taki mið af daglegum þörfum fjölskyldunnar. Þetta tel ég vera mikinn ágalla á frv. til laga um gerð samgönguáætlunar sem hér er lagt fram og reyndar á öllum þáttum sem lúta að samgöngumálum, að það skuli ekki tekið beint tillit til hins daglega lífs og þarfa fjölskyldunnar í stefnumótun fyrir samgöngumál, að hagsmunir þeirra og sjónarmið séu ekki dregin inn og tekin með í texta frv.

[14:30]

Virðulegi forseti. Reyndar tel ég umhugsunarefni hvernig þessi samgönguáætlun er unnin, vek athygli á því að fjölskyldan er hvergi nefnd og að umhverfisþátturinn fær ekki þann sess í lagaumgerðinni sem ég hefði viljað sjá. Því nefni ég það hér í textanum að mér finnist þessi áætlun vera afar karlmiðuð. Þá er ég ekki að kasta rýrð á þá ágætu karlmenn sem hafa staðið að gerð þessarar áætlunar og lagatexta. Engu að síður vekur athygli við gerð þessarar samgönguáætlunar að stýrihópurinn sem skipaður var af ráðherra samanstendur af sjö körlum, fimm tilnefndum af ráðherra og tveimur sem starfa með hópnum af hálfu ráðuneytisins. Ég er alveg viss um að hver og einn þessara ágætu karla hefur lagt sitt af mörkum og unnið þetta af fyllstu samviskusemi. En það getur samt ekki verið í takt við tímann að samgönguáætlanir og tillögur í samgöngumálum séu eingöngu unnar af körlum því að nánd eða sýn kvenna, einmitt út frá fjölskyldumálunum eins og ég nefndi hér áðan, gæti hafa komið sterkar inn í þessa vinnu alla ef um eðlilega kynjaskiptingu hefði verið að ræða við gerð þessarar áætlunar.

Virðulegur forseti. Ég hef því sagt hér og get vitnað til þess víðar í textanum að mitt mat er að öll vinna í samgöngumálum snýst um þessa stóru trukka. Hún snýst um þessa stóru trukka sem eru jú mikilvægir. Þess vegna er hún mjög karlmiðuð. Þó er ég alls ekki að segja að trukkar geti ekki líka verið atvinnutæki í höndum kvenna. En málefni fjölskyldunnar hefðu mátt koma þarna miklu sterkar inn.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram till. til þál. sem lýtur að samgöngumálum. Hún hefur ekki enn fengist rædd hér. Það er till. til þál. um strandsiglingar sem ég tel veigamikinn þátt sem þurfi að skoðast mjög gaumgæfilega í umræðunni um gerð samgönguáætlunar. Nánast allir flutningar í hringinn kringum landið eru komnir upp á þjóðvegina, þjóðvegi sem alls ekki bera þessa stóru flutningabíla. Þar fyrir utan eru þeir ekki vistvænasti flutningamátinn sé tillit tekið til umhverfisins. Því hef ég lagt fram till. til þál. um að Alþingi feli samgrh. að skipa strandsiglinganefnd sem hafi það hlutverk að kanna þróun og stöðu og æskilega framtíðarhlutdeild strandsiglinga í vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ég tel að það eigi að skoða og endurskoða hlut strandsiglinga í heildarsamgöngukerfinu og því er afar mikilvægt að þessi tillaga mín um strandsiglingar komi líka inn í umræðuna um gerð samgönguáætlunar.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vitna til umsagnar sem hv. samgn. fékk um þessa samgönguáætlun en hún benti einmitt á mikilvægi þess að menn huguðu að fleiri þáttum og drægju fram fleiri áherslur en koma fram í texta samgönguáætlunarinnar. Ég leyfi mér hér að vitna til umsagnar Félags íslenskra skipstjórnarmanna, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Með því að leggja niður sementsflutninga með Skeiðfaxa milli Akraness og Reykjavíkur voru sömu flutningar færðir á vegakerfi landsins. Til að flytja sama magn á þeirri tímaeiningu sem skipið flutti þarf lest tíu sementsflutningabíla og er orkunotkun þeirra varlega áætluð um 800% meiri en fer til að knýja skipið sömu leið með tilheyrandi aukningu í útblæstri og mengun. Bílalestin leggur slitálag á 49 kílómetra af vegakerfi landsins, en skipið notar við sömu störf tvo viðlegukanta, vita og önnur leiðarmerki sjófarenda, auk eigin tæknibúnaðar.

Mánafoss, minnsta skip Eimskipafélags Íslands, flytur um 3.300 tonn af vörum. Flytji Mánafoss það magn af vörum í órofinni siglingu milli Reykjavíkur og Akureyrar tekur það um 27 klst. miðað við meðalaðstæður. Með því að flytja sama magn á vegakerfinu þessa leið, á sama tíma, þurfa 28 fulllestaðir vöruflutningabílar með tengivagni að fara þrjár ferðir hver, á milli Reykavíkur og Akureyrar. Er þá miðað við hámark í leyfilegum öxulþunga við bestu aðstæður og 60 km meðalhraða á bíl. Þessi ,,bílalest`` leggur á 27 klst. tímabili slitálag 84 fulllestaðra flutningabíla á 389 km af vegakerfinu. Ef flytja á sama flutningsmagn með flugi sömu leið á sömu tímaeiningu og sjóflutningurinn tekur, með meðalstórri flutningaflugvél (C-130), þarf að fara 118 ferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar sem þýðir að 13 slíkar flugvélar þurfa að vera í stöðugum ferðum mili þessara staða ...

Að framansögðu er það mat Félags íslenskra skipstjórnarmanna að samræmd samgönguáætlun muni sýna fram á mikilvægi sjóflutninga við Ísland í framtíðinni og stuðla að eflingu þeirra.``

Virðulegi forseti. Mér þótti rétt að draga fram hvað Félag íslenskra skipstjórnarmanna leggur áherslu á að skoða skuli við samræmda samgönguáætlun. Að sjálfsögðu þurfa sumir flutningar að ganga hratt fyrir sig. Pakka og minni hluti þarf áfram að flytja með bílum. En það hlýtur að vera hægt að kanna möguleika á gámaflutningum um sjó meðfram ströndum landsins, þ.e. flutningum sem ekki liggur eins mikið á.

Bæði Landvernd og Náttúruvernd ríkisins leggja áherslu á að í samgönguáætlun verði tekið tillit til umhverfismála og ítreka í umsögnum sínum að stefnan í umhverfismálum og umverfismál sem lúta að samgöngumálum verði tekin miklu sterkar og með ákveðnari hætti inn í lögin um samgönguáætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið þær áherslur sem ég tel að vanti í frv. til laga um samgönguáætlun. Ég tel að þar eigi að taka beint inn í lagatextann að samgönguáætlun skuli vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum.

Í öðru lagi legg ég til að í upptalningu þar sem verið er að telja upp þau markmið sem vinna beri eftir, þ.e. að við 2. mgr. 2. gr. bætist nýr stafliður er verði a-liður og orðist svo: að fylgt verði markmiðum sjálfbærrar þróunar við gerð áætlunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég tel að það að hafa ekki þessa þætti inni sé ekki í takt við tímann, sé ekki í takt við þá framtíðarsýn sem við viljum hafa og það er ekki í takt við alþjóðasamninga, skuldbindingar og yfirlýsingar sem við höfum gengist undir um að ná árangri í umhverfis-, öryggis- og fjölskyldumálum á nýrri öld. Ég óska því eftir, virðulegi forseti, að hv. alþm. verði mér sammála um þær brtt. sem ég hér hef lagt fram.