Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 14:46:23 (6237)

2002-03-19 14:46:23# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér finnst þetta frv. um samgönguáætlun verðskulda eins og eina messu hér í umræðum. Af minna tilefni hafa menn talað. Hér er loksins á dagskrá frv. til laga um gerð samræmdrar samgönguáætlunar. Málið fékk að vísu dálitla umræðu við 1. umr. og það var vel en komið úr nefnd gefur það engu að síður tilefni til ákveðinna vangaveltna.

Ég var dálítið undrandi þegar ég sá álit meiri hlutans, að ekki stæði til að gera á þessu neinar breytingar. Ég hafði bundið vonir við að menn mundu skoða af alvöru í nefndinni, eftir þá umræðu sem hér varð við 1. umr., að tekið yrði á ákveðnum þáttum sem bent var á þar að betur mættu fara varðandi fyrirkomulagið eða stjórnkerfið sem þarna á að setja upp og jafnvel innihaldið að einhverju leyti. Hér er auðvitað fyrst og fremst um að ræða rammann utan um þá tillögu til samræmdrar samgönguáætlunar sem í gildi yrði á hverjum tíma.

Ég er að sjálfsögðu sammála nál. minni hluta samgn., hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem hann fór yfir áðan í ítarlegu máli og tek undir það að nokkuð vanti upp á áherslur hvað varðar t.d. alþjóðlegar skuldbindingar okkar á sviði umhverfismála og umverfisþáttinn almennt. Það gengur seint að koma þeim á dagskrá hér á Íslandi í tengslum við samgöngumál. Það er ólíku saman að jafna ef maður lendir í umræðum um samgöngumál, t.d. vettvangi hinna Norðurlandanna eða í Evrópu, þar sem samgöngumál eru jafnvel í hugum manna fyrst og fremst umhverfismál. Menn nálgast þau fyrst og fremst út frá því. Þar hafa menn í stórborgum glímt við það um áratuga skeið að vera að drukkna í umferð og mengun. Þar með er það sjálfgefinn útgangspunktur að nálgast málið út frá því að þetta sé umhverfismál. Menn eru löngu hættir að bjóða upp á neitt annað í umræðum um þessi mál t.d. í París. Þar er einkabílnum settar miklar skorður og í raun er samkomulag um að takmarka fjöldann, m.a. aðgengi einkabíla að miðborgarsvæðinu með því að gera engar úrbætur fyrir bílinn þannig að honum fjölgi ekki. Í staðinn eru efldar almenningssamgöngur og greitt fyrir umferð fótgangandi, hjólandi o.s.frv.

Svipað hef ég oft séð upp á teningunum í umræðum um þessi mál á vettvangi Norðurlandaráðs þar sem menn ræða um þessi mál. Þá velta menn mjög vöngum yfir því hvernig eigi að byggja upp samgöngukerfið þannig að það þjóni sem best þessum margþættu samþættu markmiðum um góðar og greiðar samgöngur en líka um skynsamlega umhverfispólitík, fjölskyldupólitík, byggðapólitík og annað í þeim dúr. Þetta fyndist mér mega koma betur inn í þennan lagaramma, t.d. hefði það að mínu mati mátt endurspeglast í ákvæðum 3. gr. frv. um samsetningu samgönguráðs og samgönguþing.

Herra forseti. Auðvitað er erfitt að ræða þetta alveg úr tengslum við veruleikann eins og hann er í samgöngumálunum á hverjum tíma og þá þróun sem við höfum séð í þessum efnum undanfarin ár. Það hefði að mínu mati alveg mátt undirbyggja þennan frumvarpsflutning og þessa umræðu hér í þinginu betur með því að draga að og greina gögn um þróunina og upplýsingar um hvert við stefnum.

Það eru athyglisverð gögn hér í fylgiskjali með nál. minni hlutans, t.d. frá Félag íslenskra skipstjórnarmanna sem þar nefna dæmi um hvað gerist ef eitt flutningaskip, hvort sem það er flutningaskip með sement eða vörur, hverfur úr rekstri og allir þeir flutningar færast upp á vegina. Það eru ótrúlegar tölur, að sjá t.d. að orkunotkun áttfaldast, eykst um 800% við að hætta rekstri sementsflutningaskips og flytja það allt saman á bílum. Er mönnum alveg sama? Á ekki að hafa neina tilburði uppi af einu eða neinu tagi til að reyna að hafa einhver áhrif á þetta?

Jafnvel þó að einhver rök geti verið fyrir því hjá rekstraraðilunum að þetta sé þægilegra, einfaldara eða mögulega ódýrara er ekki þar með sagt að stjórnvöld ætli enga meðvitund að hafa um það sem er að gerast. Það mundu menn hafa erlendis, ég fullyrði það. Svona hlutir færu þar ekki í gegn umræðulaust eða aðgerðalaust. Það gengi ekki þannig fyrir sig. Á meginlandi Evrópu eru menn t.d. í óða önn við að efla á nýjan leik járnbrautarsamgöngur, flutningaleiðir á fljótum og vötnum, til að draga úr þörfinni fyrir flutninga með bílum á landi. Á sama tíma stefna hins vegar þessir hlutir á Íslandi á ótrúlegum hraða í öfuga átt.

Þetta gerist eins og fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þrátt fyrir það að við höfum undirritað alþjóðlegar skuldbindingar um að reyna að stýra þessu í skynsamlegan farveg, ekki síst frá sjónarhóli umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Það höfum við gert með undirritun Ríó-sáttmálans. Hins vegar vill bera á því, herra forseti, að menn undirriti slíka hluti úti í heimi og fullgildi jafnvel samningana hér heima en láti svo eiginlega eins og þeir séu ekki til og það standi ekkert upp á menn að efna þá á einn eða neinn hátt. Við höfum stundum bent á það í umræðum um sjávarútvegsmál að í Ríó-sáttmálanum undirrituðu menn hátíðlega klásúlur um að styrkja vistvænar veiðar. Það hefur nú ekki borið mikið á því í framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar síðan 1992, eða er það? Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson getur kannski frætt okkur um hvar þess sjái stað í sjávarútvegsstefnunni að við séum þjóðréttarlega skuldbundin á grundvelli alþjóðasamnings séum við höfum undirritað og fullgilt, að stuðla að þróun í átt til vistvænna veiðiaðferða. Bólar ekkert á því?

Hið sama er í raun upp á teningnum í sambandi við samgöngurnar. Skoðum t.d. þróunina þar, þar sem strandsiglingar og þungaflutningar á sjó með ströndum landsins eru á stórfelldu undanhaldi og engin viðleitni uppi af hálfu stjórnvalda til að bregðast þar við. Ef eitthvað er þá er stefnan hið gagnstæða, samanber þá ákvörðun ríkisstjórnar á sínum tíma að leggja niður Skipaútgerð ríkisins. Þetta hefur auðvitað þýtt gríðarlegt viðbótarálag á vegakerfi landsins, gríðarlega viðbótarorkunotkun, eins og dæmin hér sýna um þá gríðarlegu aukningu á orkunotkun sem verður við að taka flutningaskip úr rekstri og flytja þá flutninga upp á vegina. Hvar ætti þetta heima, herra forseti, ef ekki í umfjöllun um samræmda samgönguáætlun? Þetta er nú akkúrat tóbakið sem maður hélt að ætti að skera með því að taka upp þau vinnubrögð.

Ég man þá tíma að þetta kom til minna kasta sem samgönguráðherra á síðustu öld, herra forseti. Þá fylgdi ekki síst sú röksemdafærsla að með þessu fengist skilvirkt og skynsamlega útfært samþætt samgöngukerfi, það yrði þjóðhagslega hagkvæmt en einnig yrði hægt að ná fram pólitískum markmiðum á sviði byggðamála, umhverfismála og annars það væri auðveldara í höndum stjórnvalda ef þetta væri samræmt og samþætt.

Ef við skoðum þróun samgangna hér út frá umhverfismálum og orkunotkun þá er það náttúrlega í eina átt. Reyndar má skjóta því að að hið sama gildir um hinn stóra jarðefnaeldsneytisnotandann í landinu sem er fiskiskipaflotinn. Þar er þróunin í átt að stórkostlega aukinni orkunotkun. Svo hefur verið undanfarin ár, með byggingu sífellt stærri skipa og jafnvel vélaskiptum í eldri skipum þar sem aflið er aukið alveg gríðarlega. Fyrir því geta verið rök í ákveðnum tilvikum en það er ekki umhverfisvæn þróun í flotanum að afli sé tekinn sífellt meir og meir í dregin veiðarfæri, að meira og meira af aflanum sé unnið úti á sjó og hann frystur úti á sjó með orku úr innfluttu jarðefnaeldsneyti í staðinn fyrir að ef vinnslan færi fram í landi væri notað rafmagn o.s.frv. Þetta vildi ég nefna, herra forseti, og bæta við það sem á undan er komið í umræðunni um þessi mál.

Mér finnst að hæstv. samgrh. ætti að gera þinginu betri grein fyrir hinni almennu stöðu, og ég trúi að hæstv. ráðherra sé hér einhvers staðar í mýflugumynd. Alla vega þóttist ég sjá skuggann af hæstv. samgrh. einhvers staðar á göngum áðan. En mér fyndist að hann mætti heiðra samkunduna með viðveru sinni í salnum. Það er erfitt að slíta þetta úr samhengi við stöðu helstu þátta samgöngumála eins og þau standa og blasa við núna um þessar mundir.

Hvernig er það, herra forseti, með stöðuna í vegamálunum þegar verið er að leggja hér drög að fyrstu samræmdu samgönguáætluninni? Jú, hún er þannig, ef minni mitt svíkur ekki, að samkvæmt gildandi fjárlögum er niðurskurður frá gildandi vegáætlun upp á eitthvað um 1,5 milljarða króna. Það var heldur bætt í hann við afgreiðslu fjárlaganna núna um áramótin. Hvar er þá hin endurskoðaða vegáætlun? Hvenær fáum við að sjá hana, herra forseti? Ætlar samgrh. ekki að a.m.k. að dreifa henni áður en þessu frv. til laga um samgönguáætlun verður lokið hér?

Við höfum þó frv. að nýjum hafnarlögum. Það er ástæða til að minna á það líka sem þar á að gerast. Það er mikið áhyggjuefni, herra forseti, ef það verður að veruleika, fyrir utan þá einkavæðingarþráhyggju sem er í því frv., sem er náttúrlega bara sjúkdómur, ekkert annað en sjúkdómur sem hrjáir þá sem eru orðnir svo helfrosnir í einkavæðingarfarveginum að það er sama á hverju dynur og hvaða höfuðhögg þeir hafa fengið í hremmingum sínum í þeim efnum. Samt skal boðuð einkavæðing á öllum sviðum og nú eru það hafnirnar.

Það sem verra er er að það á augljóslega nánast að hætta fjárfestingum í hafnaraðstöðu og hafnarmannvirkjum í landinu nema í nokkrum stærstu og ríkustu höfnunum. Þær verða ekki margar ef svo heldur sem horfir nema bara hér á Reykjavíkursvæðinu. Meira að segja þær hafnir sem höfðu umtalsverðar tekjur af vöruflutningum úti á landi áður, hafnir eins og á Akureyri, Ísafirði, Dalvík og víðar, tekjur þeirra fara nú hraðminnkandi af því flutningarnir eru að færast upp á land.

Tökum Ísafjörð sem dæmi, þar sem menn fjárfestu í dýrum köntum og aðstöðu fyrir flutningaskip. Ég er nú hræddur um að notkunin á því sé ekki mikil og tekjurnar sem þar koma inn séu ekki miklar. Hið sama gildir um fleiri. Á Dalvík var umsvifamikil höfn við utanverðan Eyjafjörð um skeið. Þar hefur líka dregið mjög úr umsvifum. Þetta er angi af þeirri þróun, herra forseti, sem er í gangi og plaggið, orð á blaði, svokölluð samræmd samgönguáætlun sem tekst ekkert á við þetta, breytir auðvitað engu. Hún breytir engu, sé ekki vilji til að móta þarna einhverja stefnu eða takast á við þetta.

[15:00]

Herra forseti. Væri ekki skynsamlegt að hæstv. samgrh. færi aðeins yfir það hvernig hann sér þessa hluti blasa við sér? Eigum við taka flugið aðeins? Eigum við að nefna flugið, herra forseti? Hvernig standa málin þar? Flugið hefur þó á köflum verið einar helstu almenningssamgöngurnar í landinu, helstu skipulögðu almenningssamgöngurnar í landinu sem a.m.k. í eina tíð teygðu sig til landsins alls, velflestra byggðarlaga fjær höfuðborgarsvæðinu. Heilir landshlutar hafa engar aðrar skipulagðar almenningssamgöngur. Það er fyrst og fremst héðan frá suðvesturhorninu sem áætlunarbílar ganga og hefur það þó allt heldur dregist saman á síðari árum. Hvernig er staðan í fluginu, herra forseti? Þar týnast staðirnir út hver á fætur öðrum. Ætli það eigi ekki að heita svo að eftir séu fjórir þar sem flugi er haldið uppi án opinbers styrks, fjórir eða fimm? Það er ekki mikið meira. Og horfurnar eru vægast sagt dökkar. Ef við förum yfir þessa stöðu, herra forseti, og meginsamgönguþættina þá er alveg tilefni til að ræða málin eins og þau blasa við okkur um þessar mundir.

Herra forseti. Ég verð að segja að þó að ég sé velviljaður þessu máli og tel að engin efni séu til annars þá finnst mér svolítið snúið að afgreiðsla þess hér skuli vera í þessu dapurlega samhengi, þ.e. að kannski er heldur verra útlit og dekkri horfur hvað varðar þróun í samgöngumálum á öllum helstu sviðum nú en verið hefur um langt árabil. Það er niðurskurður í framkvæmdum til samgöngumála, mikill niðurskurður miðað við þá áætlun sem afgreidd var á sínum tíma og menn geta svo sem sagt að hafi verið sæmilega metnaðarfull. En það munar nú um minna en niðurskurð upp á 1,5 milljarða sem fyrir liggur. Síðan er okkur boðað, án þess að það sé útskýrt nánar, að vegna þess að einkavæðingin er öll farin í vaskinn og menn fá ekki inn tekjur af því að selja fjölskyldusilfrið, eins og Landssímann, þá verði dregið úr framkvæmdum. Það hefur verið boðað. Hvar eru þau áform? Hvenær fær þingið skýringar á því hvað þarna er í vændum? Ég held, herra forseti, að það þurfi nú að fara að banka aðeins í menn. Er ekki kominn rúmlega miður mars? Og eftir er svona rétt tæpur mánuður í reynd af starfstíma Alþingis vegna þess að það er páskahlé fram undan. Hvenær á að fara í gegn með þessa hluti og hvenær á að afgreiða þetta?

Við gætum bætt einum meginþætti samgangnanna við. Ég hef gagnrýnt það, herra forseti, að bæði í tillögum starfshópsins um samgönguáætlun og hér, sér þess alls ekki stað að menn muni eftir fjórða meginsamgönguþættinum eða víddinni, þ.e. fjarskiptunum. Það tel ég mjög miður. Ég tel, herra forseti, að menn hefðu átt að hafa þau hérna með og að ástæða sé til þess að fara yfir það hvernig þau standa.

Þar er nú heldur betur búin að vera upplausn mála. Hin mislukkaða og arfavitlausa tilraun til þess að einkavæða Landssímann hefur auðvitað sett þau mál öll í uppnám núna í um eins, tveggja, þriggja ára skeið og sér ekkert fyrir endann á því enn þá svo sem, því þetta fyrirtæki hefur í raun ekkert verið í aðstöðu til að móta áherslur sínar til framtíðar í trausti þess að það yrði til sem slíkt við óbreyttar aðstæður og ætti áfram að sinna sínum mikilvægu skyldum um að byggja upp fjarskiptakerfi fyrir alla landsmenn og tryggja góða þjónustu um allt land.

Herra forseti. Auðvitað er það þannig þrátt fyrir allt blaðrið að engu öðru er til að dreifa þegar kemur út fyrir 101 en Landssímanum. Það er hann sem á og rekur grunnfjarskiptanetið og er með þetta á sínum herðum. Ég hef alltaf séð fyrir mér að inn í samræmda samgönguáætlun ættu fjarskiptin að koma því þau eru ekki síst mikilvæg. Þau eru ekki síst mikilvæg vídd í þessum samgöngumálum og eru það náttúrlega kannski í enn ríkari mæli í dag en þau voru áður. Aðrar samgöngur eru tengdar því hversu góð fjarskiptin eru. Það þarf ekki að senda bréf í pósti eða koma gögnum á milli með efnislegum hætti ef menn hafa aðgang að úrvals og bestu fáanlegum nútíma fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikum. Því geta, ef maður má orða það svo, lakari samgöngur í efnislegum skilningi verið fremur ásættanlegar ef menn hafa þessa fjarskipta- og gagnaflutningamöguleika, ef menn geta stundað fjarnám, ef menn geta sinnt atvinnu sinni án þess að þurfa að ferðast sjálfir á milli o.s.frv. Þetta hangir saman, herra forseti, og ætti auðvitað að ræðast á þann hátt. Mér finnst að þarna hefði mátt takast betur til.

Nú veit ég að vísu að tillögur hópsins eru ekki sjálfkrafa hið sama og sú till. til þál. um samræmda samgönguáætlun sem við væntanlega fáum inn í þingið í haust í síðasta lagi. Ég hef skilið það svo að það verði ekki á þessu þingi. Þess vegna er líka ástæða til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri ef það mætti nú verða til þess að menn færu í þeirri vinnu sem fram undan er a.m.k. yfir þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram. Þó að þingtíðindin séu kannski ekki metsölubók svona í venjulegu árferði þá ætlast maður þó til þess að þeir sem vinna svona sérstaka vinnu kynni sér þau sjónarmið sem sett hafa verið fram í umræðum á hinu háa Alþingi þegar lagaramminn um þetta er festur niður.

Herra forseti. Að lokum er eitt atriði sem ég ætla að gera sérstaklega að umtalsefni. Ég heyri og sé að það gleður menn alveg óskaplega hér í hliðarsölum án þess að þeir viti kannski hvað það er. En það er stjórnkerfið sem hér á að setja upp. Ég var mjög undrandi, herra forseti, þegar ég las 3. gr. frv. Ég var satt besta að segja alveg undrandi.

Ég verð að leyfa mér, herra forseti, að minna aftur á að ég gerði góðlátlegar athugasemdir við að hæstv. samgrh. væri ekki hér í salnum og fylgdist með umræðunum þannig að við tækjum eftir því að hann væri hér. Það kann vel að vera að hann sitji einhvers staðar og hlusti í einangrun. En heldur vildum við nú hafa hæstv. ráðherra hérna með okkur.

Ég undrast mjög að menn skuli, mér liggur við að segja, hafa fyrir því að setja á fót eitthvað sem þeir kalla samgönguráð skipað þremur yfirmönnum þriggja opinberra stofnana sem heyra beint undir samgrn. og fulltrúa samgrh. Ég leyfi mér nú bara að segja: Til hvers er það? Af hverju fundar bara ekki samgrh. með þessum mönnum einu sinni, tvisvar á ári, þó það væri fjórum sinnum, og sleppir því að láta það svo heita að til sé eitthvað sem heitir samgönguráð? Er það til þess að hægt sé að borga mönnum þóknun fyrir að sitja í samgönguráði? Er kannski í vændum einhver 300 þús. kr. þóknun fyrir það að einhver fái að heita formaður samgönguráðs? Þetta er skrípaleikur, herra forseti. Með fullri virðingu fyrir þessum ágætu sómamönnum sem, ef ég man rétt, eru allt saman vinir mínir, vegamálastjóri, siglingamálastjóri og flugmálastjóri, þá er það eins og hver annar brandari að raða þeim inn í eitthvað sem heitir ráð, plús fulltrúa samgrh. Af hverju er hann þá bara ekki sjálfur í því? Eða yrði það kannski aðstoðarmaður hans? Þetta er algjörlega hlægilegt, herra forseti. Ef eitthvað á að vera til sem heitir samgönguráð með lögbundið hlutverk þá verður auðvitað að vera einhver breidd í því. Það verður að færa eitthvað nýtt inn í málið. Það má færa rök fyrir því að það ættu einmitt ekki að vera þessir menn sem eru síðan með framkvæmdina á sínum herðum. Þeir mundu að sjálfsögðu vinna með samgönguráði, leggja því til upplýsingar, aðstoða það og framkvæma stefnuna. En að þeir skuli líka settir í ráð til að móta hana er eins og hver annar brandari.

Herra forseti. Það er a.m.k. algjört lágmark að þetta ráð verði breikkað um fulltrúa sem bæru inn í vinnuna t.d. umhverfisviðhorf. Hvar eru þau? Hver þeirra á að sjá um þau? Þetta eru framkvæmdastjórar eða forstöðumenn framkvæmdastofnana, framkvæmda- og stjórnsýslustofnana undir ráðuneytinu. Hver þeirra á að taka þættina sem ekki eru sérstaklega merktir þarna á blaði með inn í vinnuna? Hver á að tryggja það? Hver á að tryggja hin félagslegu eða byggðalegu sjónarmið í þessari vinnu? Er það hlutverk flugmálastjóra? Nei, kannski vegamálastjóra. Hvað með siglingamálastjóra? Er ekki betra að hann geri það? Þetta er þannig, herra forseti, að það er eiginlega erfitt að taka þetta alvarlega.

Ég verð að segja að mér finnst að sumu leyti að betra væri að sleppa þessu og segja bara: Þessir ágætu opinberu embættismenn og ráðuneytið eru bara með þetta. Það eru þá hreinar línur. Það er bara þeirra verkefni eins og í venjulegri pýramídalagaðri opinberri stjórnsýslu.

Ef þarna kemur til einhver sjálfstæður millileggur, milliaðili, þá er enginn tilgangur með því, herra forseti, nema hann hafi í fyrsta lagi vel skilgreint og afmarkað hlutverk og í öðru lagi að hann beri eitthvað nýtt inn í vinnuna, breikki grundvöllinn og tryggi aðgang mismunandi sjónarmiða. Ég hefði vel getað séð fyrir mér, og ég hygg að það hafi verið sú tillaga sem var á blaði á vormánuðum 1991 þegar hugmyndir voru, mér vitanlega, fyrst settar fram um einmitt samgönguráð, að það yrði breiður vettvangur með aðild ekki bara ferðamálaaðila, umhverfisaðila og byggðatengdra aðila og fleiri slíkra, heldur líka t.d. rannsóknastofnana. Af hverju eru ekki fengnir þarna inn fulltrúar frá háskólum eða rannsóknastofnunum til að tryggja dýnamíska umfjöllun og áreiti þannig að þarna eigi sér stað einhver skoðanaskipti og að þarna sé gerjun og þarna sé pottur til þess að vinna úr framsækna stefnu. Þetta er eiginlega eins þrengslalegt, herra forseti, og nokkur möguleiki er á.

Ég nefni svo líka þann möguleika að þarna væri þverpólitísk skipan í bland, e.t.v. við fagaðila. Það gæti verið hið besta mál. Þessi vettvangur gjörbreytir um eðli og inntak ef þarna bætast við t.d. fulltrúar þingflokka og fleiri aðilar. Ég sé ekkert að því að svona stefnumótandi og leiðbeinandi ráð sem á samkvæmt orðanna hljóðan að hafa yfirumsjón með gerð samgönguáætlunar sé þannig skipað. Það er ekkert að því.

Herra forseti. Þó maður sé að verða eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni af því þeir siðir eru meira og minna aflagðir þá minni ég á og vil halda til haga að það var nú lengi aðalsmerki allrar vinnu í sambandi við áætlanagerð á sviði samgöngumála að hún var mótuð og undirbúin af þverpólitískt skipuðum nefndum. Þannig var það t.d. með allar fyrstu langtímaáætlanirnar í vegagerð. Engum datt annað í hug í byrjun en að vinna þær þannig að reynt væri að skapa um þær sem mesta þverpólitíska samstöðu. Af hverju, herra forseti? Það var af því menn voru ekki blindaðir af þeim valdhroka eilífðarinnar sem menn virðast vera haldnir af í dag, þ.e. að halda að þeir verði endalaust við völd og þurfi aldrei að hlusta á nein önnur sjónarmið. Menn sögðu sem svo: Ef við ætlum að leggja hérna grunn að myndarlegri 12 ára langtímaáætlun í vegagerð, viljum að hún sé vel akkeruð og hafi sem breiðastan stuðning þannig að ekki skipti máli í sjálfu sér hvernig ríkisstjórnir koma og fara á komandi árum á þessum áætlunartíma, þá verður að mega ætla að á bak við vinnuna sé öflugur og breiður pólitískur stuðningur. Þannig var þetta hugsað og þetta var að mínu mati mjög skynsamlegt vegna þess að þetta dró úr líkunum á því að þegar nýir menn kæmu að verkunum hentu þeir öllu sem fyrir væri. En á því hefur farið að bera í æ meiri mæli á síðari árum, herra forseti, að menn umgangist þessa hluti þannig, eins og þeim komi ekki við hvað stjórnvöld hafa áður ákveðið, sú stefna sem áður hefur verið lögð o.s.frv. Það er ekki góð stjórnsýsla. Það skapar ekki festu og það skapar ekki tiltrú manna á að áætlanagerð sé einhvers virði og haldi. Ég veit að það gildir fyrir alla aðila, það gildir fyrir íbúa byggðanna, það gildir fyrir framkvæmdaaðila eins og verktaka og það gildir auðvitað fyrir þá embættismenn sem eru að vinna að þessu að æskilegt er að langtímaáætlanir standist, að unnið sé eftir þeim og að eitthvert mark sé á þeim takandi. Besta aðferðin til að tryggja að svo sé er að skapa pólitíska samstöðu á bak við það.

Þess vegna er þetta óskynsamlegt herra forseti. Þess vegna er vitlaust að búa til samgönguráð með einum pólitískum fulltrúa frá einum ráðherra og þremur embættismönnum. Það er næstum að segja hallærisleg lending. Ég get eiginlega ekki kallað það annað. Ég held að það sé afturför, veruleg afturför frá þeim vinnubrögðum sem hér voru áður ástunduð.

[15:15]

Ég varð því fyrir vonbrigðum, herra forseti, þegar ég sá þessa 3. gr. frv. og ég verð að segja að ég varð fyrir enn meiri vonbrigðum þegar ég sá hana koma óbreytta út úr nefndinni og hingað til 2. umr. Ég áskil mér allan rétt til að halda áfram að berjast fyrir breytingum á a.m.k. þessum þætti málsins. Ég óska eftir því að hv. samgn. taki málið aftur til sín milli 2. og 3. umr. og fari yfir þessi sjónarmið sem hér hafa verið fram sett, og ef ekki mun ég a.m.k. sjá til þess að breytingartillaga við þetta og jafnvel varabreytingartillaga verði flutt við 3. umr. Annaðhvort verði samsetningu samgönguráðsins breytt, það breikkað og jafnvel gerð blanda af þverpólitískum fulltrúum og fagaðilum, eða þá til vara að það verði slegið af. Ég held að það sé verra en ekki neitt að fara út í þetta svona, þetta verði hallærislegur vettvangur sem að lokum þjóni litlum sem engum tilgangi öðrum en þeim að hægt verði að greiða einum fjórum einstaklingum myndarlega þóknun fyrir að sitja í ráðum. Væri nógu gaman að sjá hvernig hún yrði þótt vonandi komi aldrei til þess.

Herra forseti. Þessum sjónarmiðum vildi ég koma á framfæri á þessu stigi umræðunnar. Í sjálfu sér er margt fleira sem gefur tilefni til að ræða þetta ítarlegar. Ég minni að lokum aftur á að mér finnst að þessu máli fylgi ekki af hálfu samgrh. sú undirbygging og sá málflutningur og þátttaka hér í umræðum sem æskilegt væri, t.d. með því að gefa almennara yfirlit yfir stöðu mála og upplýsa þingið um það hvar einstakir þættir eru á vegi staddir eins og endurskoðun vegáætlunar og annað slíkt.