Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:30:31 (6239)

2002-03-19 15:30:31# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum hafa forustuaðilar í þjóðfélaginu leitað leiða til að draga úr verðhækkunum og hægja á eða bæla niður verðbólguna án þess að þjónusta skerðist. Mikið er í húfi. Verðbólgan eykur greiðslubyrði heimilanna og skerðir kaupmátt. Vísitala neysluverðs hefur rokið upp á síðustu mánuðum og er nú tæp 222 stig, en fari hún yfir 222,5 stig 1. maí, lenda kjarasamningar í uppnámi. Forustumenn launþegasamtaka hafa gengið á fundi ríkisstjórnar, sveitarfélaga og stærstu fyrirtækja landsins og hvatt til verðlækkana á vörum og þjónustu. Allir hafa lofað að gera sitt til að berja verðbólguna niður. Það kom því allri þjóðinni fullkomlega í opna skjöldu þegar samgrh. ákvað á aðalfundi Landssímans nýverið að ekki aðeins yrði allri stjórninni skipt út, heldur einnig að tvöfalda laun stjórnarmanna. Óbreyttir stjórnarmenn sem höfðu áður 65.000 kr. á mánuði, fá nú 150.000 kr. á mánuði, eða 1,8 milljónir á ári. Stjórnarformaðurinn sem hafði áður 150.000 kr. á mánuði, fær nú 300.000 kr. á mánuði, eða 3,6 millj. kr. á ári.

Herra forseti. Samgrh. segir í viðtali við fréttamiðla að nauðsynlegt hafi verið að gera meiri kröfur til hvers og eins stjórnarmanns og þess vegna séu launin hækkuð. Er hann þar með að slá föstu að fyrrverandi stjórn Landssímans hafi staðið sig svo illa vegna þess að launin voru svo lág? Í henni sátu m.a. tveir þingmenn Framsfl. og var það vegna launanna sem þeir stóðu sig svona illa? Er Framsfl. þá sammála þeirri túlkun sem lesa má út úr orðum hæstv. samgrh.?

Í Kastljóssþætti 26. febrúar sl. sagði hæstv. forsrh.: ,,Mér finnst reyndar sjálfum að 180.000 í stjórnarformannslaun séu ágæt laun fyrir slíka starfsemi.`` Og í útvarpsviðtali 12. mars finnst hæstv. forsrh. þessi nýju stjórnarlaun engin ofrausn og fullyrðir að flestir séu sammála um að stjórnarlaun hafi verið of lítil hér og allt í einu er það engin ofrausn að greiða stjórnarformanni 300.000 kr. í laun á mánuði í aukaþóknun plús sitt fulla starf.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal greiddi atkvæði með hækkun á launum stjórnarmanna Landssímans og segir í blaðaviðtali að það sé mjög mikilvægt að manna vel stjórnir fyrirtækja og bjóða góð laun svo hæft fólk fáist til þeirra starfa. Já, var þetta vandi fyrrverandi stjórnar Landssímans? Hv. þingflokksformaður Framsfl. finnst þetta samt allt of mikil hækkun og það sem áður var greitt sé kappnóg: ,,Þetta er langt umfram það sem gengur og gerist fyrir stjórnarsetu í öðrum stofnunum hjá ríkinu eða sambærilegum fyrirtækjum``, segir hv. þingflokksformaður Framsfl.

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi ákvörðun sem hæstv. samgrh. tók á aðalfundi Landssímans um meira en 100% hækkun á launum til stjórnarmanna Símans sé á vissan hátt stefnumarkandi og sterk skilaboð til þjóðfélagsins. Þess vegna er ekki úr vegi að spyrja hæstv. ráðherra:

Var haft fullt samráð innan ríkisstjórnarinnar og stóð ríkisstjórnarsamþykkt að baki þeirri ákvörðun samgrh. um ríflega tvöföldun á launum til einstakra stjórnarmanna Landssímans?

Í öðru lagi. Er þessi hækkun á launum stjórnarmanna Landssímans liður í stefnumótun ríkisstjórnarinnar um þóknanir af þessu tagi?

Í þriðja lagi. Hver er rökstuðningur ráðherrans fyrir þessari miklu hækkun á launum stjórnarmanna Landssímans?

Í fjórða lagi. Er þess að vænta að laun eða þóknanir til annarra sem sitja og starfa í nefndum eða stjórnum á vegum samgrn. eða á vegum ríkisins muni hækka samsvarandi? Hvað með Íslandspóst? Honum gengur ekki nógu vel. Þarf ekki að hækka launin þar? Hvað með Rarik? Þar er allt í steik samkvæmt orðum hæstv. iðnrh. og þarf að breyta því í hlutafélag. Þarf ekki að hækka launin þar? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi stjórnarlaun á hennar vegum?

Í síðasta lagi hefur þessi hækkun verið harðlega gagnrýnd af verkalýðshreyfingunni sem er að berjast fyrir 2--5% hækkunum, en horfir svo upp á tvöföldun á einum degi. Hvað ætlar ríkisstjórnin að segja við elli- og örorkulífeyrisþega sem eru með um 80.000 kr. á mánuði fyrir skatta? Hver telur hæstv. ráðherra að verði líkleg áhrif þessarar ákvörðunar um laun stjórnarmanna Landssímans á launa- og verðlagsþróun í landinu? Menn eru að berjast hér gegn verðbólgu og gegn rýrnun kaupmáttar og er þegar farið að beita hörðu í samfélaginu þvert á það sem hæstv. samgrh. er að gera í ákvörðunum á stjórnarlaunum. Ég held að þjóðin öll krefjist svars.