Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:35:47 (6240)

2002-03-19 15:35:47# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það verður að teljast harla óvenjulegt að ræða á Alþingi utan dagskrár þar sem yfirleitt er nú fjallað um mjög brýn og aðkallandi vandamál í samfélaginu, laun stjórnarmanna í hlutafélagi, í þessu tilviki hlutafélaginu Landssími Íslands hf. Það er athyglisvert að meira að segja, ef hv. þm. Vinstri grænna vilja leyfa mér að tala, er sérstaklega tekið fram af hálfu málshefjanda hvernig einstakir hluthafar greiddu atkvæði. Umræðan er náttúrlega alveg ótrúleg og afar sérstök. Ákvörðun um laun stjórnar Símans var tekin með tilliti til þess hvernig stærsti hluthafinn var að velja fulltrúa sína í stjórnina og um skipan stjórnarinnar var að sjálfsögðu haft samráð eins og eðlilegt er.

Ég vil sérstaklega undirstrika í umræðunni í dag að það hefur verið lenska hér á landi að gera lítið úr setu í stjórnum og ráðum, sérstaklega sem stjórnmálamenn skipa. Sumir hafa jafnvel litið svo á að um væri að ræða bitlinga. Tímabært er að mínu mati að breyta þeim hugsunarhætti og mér fannst örla á þessum hugsunarhætti hjá hv. málshefjanda og hann reyndi að ala á honum að mér fannst. Seta í stjórnum er og hefur verið afar mikilvægt starf og rík ábyrgð hvílir á þeim sem taka sæti í stjórnum hlutafélaga.

Ákvörðun um skipan stjórnar Símans að þessu sinni var ákvörðun um breytingar á stjórninni og breytingar á verklagi hennar í samræmi við þau verkefni sem við henni blasa. Verkefni stjórnar Símans eru mjög vandasöm vegna þeirrar stöðu sem Síminn er í sem markaðsráðandi fyrirtæki sem á að einkavæða. Við val á stjórn var leitast við að kalla til einstaklinga með víðtæka og öfluga reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu. Stjórn Símans hefur það verkefni að sjá svo um að fyrirtækið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til Símans í starfsleyfi hans sem markaðsráðandi fyrirtækis sem veiti þjónustu um allt land. Jafnframt er það mikilvægt verkefni stjórnarinnar að tryggja verðgildi fyrirtækisins og að það fari vaxandi og hann verði áfram undirbúinn undir breytt eignarhald.

Um leið og ákvörðun var tekin um að fækka í stjórninni taldi ég eðlilegt að breyta launagreiðslum. Jafnframt er gert ráð fyrir aukinni vinnu stjórnarmanna við að efla ímynd fyrirtækisins og þar með var nauðsynlegt að gera ráð fyrir hærri greiðslu til allra sem sitja í stjórninni. Fyrir þá vinnu er greidd fyrirframákveðin upphæð, upphæð sem ákveðin var á aðalfundi, í stað þess að velja þá leið sem valin var gagnvart fyrri stjórn, að formaður fengi aukaþóknun vegna sérstakra verkefna. Þrátt fyrir hækkun stjórnarlauna er alveg ljóst að heildargreiðslur til stjórnar munu verða lægri en sú heildargreiðsla sem var innt af hendi samtals fyrir stjórnarlaun og þóknun vegna sérstakra verkefna stjórnarformanns. Ég tel miðað við reynslu betra að fara þá leið sem valin var og að stjórnin viti að ekki verði um frekari greiðslur að ræða þrátt fyrri óvænt verkefni.

Rétt er að minna á að ákvörðun um laun stjórnar er tekin á aðalfundi og gildir til næsta aðalfundar. Stjórnarmenn hafa enga tryggingu fyrir því að sitja áfram í stjórn þrátt fyrir það að þeir hafi eytt miklum tíma og mikilli orku í að kynna sér fyrirtækið og alla starfsemi þess. Síminn er stórt fyrirtæki og mikilvægt að stjórnin sé öflug, taki hlutverk sitt alvarlega og finni til þeirrar miklu ábyrgðar sem stjórnarsetu fylgir.

Ég vil árétta að þess er ekki að vænta að laun eða þóknanir til annarra sem sitja eða starfa í nefndum á vegum samgrn. muni hækka. Verkefni stjórnar Símans eru óvenjuleg og ekki sambærileg um þessar mundir við verkefni annarra stjórna eða nefnda á vegum ráðuneytisins.

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með hversu góðar viðtökur val í stjórn Símans hefur fengið. Ég er sannfærður um að það ágæta fólk mun leggja sig fram og nýta reynslu sína og þekkingu í þágu Símans. Það er aðalatriði málsins.