Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:40:40 (6241)

2002-03-19 15:40:40# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði vonast eftir því hér í umræðunni að hæstv. samgrh. mundi koma með þau rök sem gerðu það að verkum að maður skildi betur þær hækkanir sem átt hafa sér stað. Rök hæstv. ráðherra voru þessi: Verkefni nýrrar stjórnar eru þess eðlis að þau þurfa að skapa fyrirtækinu nýja ímynd. Ég spyr: Hver er það sem hefur brotið niður þá ímynd? Með öðrum orðum, það sem hæstv. ráðherra er að segja, eins og ég skil það, er að afglöp hæstv. ríkisstjórnar eru þess eðlis að ráða þarf í stjórnina algerlega nýtt fólk í því skyni að bjarga því sem bjargað verður. Þetta, virðulegi forseti, eru vitaskuld ekki nokkur einustu rök. Og það eru heldur ekki rök, þó ég geti tekið undir það að vel hafi tekist til að manna þessa stjórn, þá eru það engin rök sem hæstv. ráðherra færði fram að nú sé stjórnin svo vel mönnuð.

Ef við tökum önnur dæmi sem við höfum. Við erum með Íslandspóst sem dæmi. Þar eru stjórnarmenn með 50.000, heyra undir sama hæstv. ráðherra. Erum við þá að tala um að þar sé svo illa mönnuð stjórn? Eða hvers konar röksemdafærsla er þetta?

Við höfum verið að takast á við það núna að reyna að halda verðlagi í skefjum. Er einhver sérstök launastefna í samgrn.? Eða á þetta við alla ríkisstjórnina eins og hún leggur sig?

Virðulegi forseti. Það sem hér hefur verið dregið fram er aðeins eitt og það er að myndast hefur gjá milli ríkisstjórnarinnar og almennings í landinu. Menn hafa tvöfaldað laun í stærsta ríkisfyrirtækinu í landinu án þess að geta fært fyrir því nokkur önnur rök en þau að hæstv. samgrh. með aðgerðum sínum hafi skaðað svo ímynd fyrirtækisins að það verði tvöfalt álag á þá stjórn sem tekur við.