Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 16:26:09 (6252)

2002-03-19 16:26:09# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög sammála þeim áherslum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom með varðandi mikilvægi samgangna í byggðamálum og ég hygg að hann geti líka verið mér sammála um að það sem hefur farið mest úrskeiðis eða verið minnst eftirfylgni þrátt fyrir allt í stefnu í byggðamálum eru einmitt samgöngurnar og áherslur og átak í samgöngumálum þó svo að þar hafi líka margt vel unnist, en þá eru samgöngumálin það mikil forsenda fyrir því að hinn pólitíski vilji í byggðamálum nái fram að ganga.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki að það væri styrking fyrir lagarammann um samgönguáætlunina ef sú brtt. sem ég hef lagt fram mundi koma inn í lagatextann sjálfan sem væri: ,,Samgönguáætlun skal vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum.`` Að þetta kæmi þarna klárt inn, ekki bara ákvæðið um arðsemi eða hagkvæmni fjármagnsins eins og tíundað er í lagagreininni, heldur líka að þessi samfélagslega sýn væri miklu sterkari í frv. og ef þessi tillaga mín næði þar inn, þá mundi hún tryggja það miklu betur.