Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 16:30:41 (6255)

2002-03-19 16:30:41# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg við 2. umr. um frv. til laga um samgönguáætlun. Eins og margoft hefur komið fram er verið að vinna að undirbúningi heildarsamgönguáætlunar til tólf ára, að samræmingu allra þeirra áætlana sem gerðar hafa verið, hvort sem það er flugáætlun, siglingamálaáætlun eða vegáætlun, setja þær saman í eina heildstæða samgönguáætlun sem er til tólf ára og endurskoðuð á fjögurra ára fresti og hins vegar fjögurra ára áætlun sem verður endurskoðuð á tveggja ára fresti.

Ég held, herra forseti, að tímabært sé að gera þetta --- reyndar löngu tímabært. Vinnubrögð sem þessi hefðum við átt að taka upp fyrir lifandis löngu, þ.e. gera heildstæða áætlun um samgöngur. Í því sambandi nægir að lesa tillögur stýrihóps að samgönguáætlun. Þá sjáum við hver þróunin hefur verið undanfarin ár, t.d. með flugvelli sem ég ætla reyndar að koma að síðar.

Ég hef skrifað upp á það nál. sem liggur hér fyrir með fyrirvara en hef svo sem ekki miklu við það að bæta. Hins vegar vil ég segja almennt um þau mál sem hér er verið að ræða að ég hef verið dálítið hugsi yfir því hvernig samgönguráð eigi að vera skipað. Eins og fram kemur í frv. er gert ráð fyrir að þar sitji flugmálastjóri, siglingamálastjóri og vegamálastjóri, auk fulltrúa samgrh. sem jafnframt verði formaður. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þau skref sem þarna eru stigin, þ.e. að skipunartími fulltrúa samgrh. er fjögur ár en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem situr eða skipar. Ég held, herra forseti, að þetta sé gott ákvæði vegna þess að auðvitað á það að vera þannig að nýr ráðherra á að geta skipað nýjan formann, trúnaðarmann sinn, til að vinna þau verk sem þarna þarf að vinna og fylgja eftir stefnumálum viðkomandi ráðherra, þess flokks sem hann situr fyrir og viðkomandi ríkisstjórnar.

Ég hef hins vegar sett spurningarmerki við það hvort það er endilega besta skipunin, að hafa samgönguráð. Þó svo að hér sé gert ráð fyrir að halda samgönguþing þar sem ýmsum hagsmunaaðilum verður boðið að sitja og koma að þá er það auðvitað á seinni stigum málsins.

Hér kemur fram að þessari tólf ára samgönguáætlun sé ætlað að verða mun víðtækari en fyrri áætlanir á sviði samgöngumála, eins og ég gat um áðan, þessar þrjár áætlanir. Auk framkvæmdaáætlunar og stefnumótunar er ætlunin að skilgreina í henni það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna í landinu, eins og segir í nál. Þá er ætlunin að hún taki jafnframt til öryggismála, umhverfismála, almenningssamgangna, fjármögnunar samgöngukerfis o.fl. Ég ætla víkja aðeins nánar að þessum fjórum þáttum sem ég taldi upp hér síðast.

Kem ég þá fyrst að umferðaröryggismálum og vil lýsa því strax að ég tel að umferðaröryggismál eigi að hafa stærri hlut í þessari samgönguáætlun. Ég hef reyndar verið lengi þeirrar skoðunar að umferðaröryggismál eigi að vistast í samgrn. og heyra undir samgrh. en ekki vera í dómsmrn. og heyra undir dómsmrh. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. samgrh. hvort ekki hafi komið til tals að gera þá breytingu í stjórnkerfinu að umferðaröryggismál yrðu flutt úr dómsmrn. til samgrn. Hann er auðvitað það stór þáttur í þeirri áætlun sem hér er talað um. Umferðaröryggismál hljóta að koma mjög mikið inn á þetta svið, þ.e. verkefni í samönguáætlun og náttúrlega sérstaklega hvað varðar vegamál. Þetta eru hlutir sem fara sérlega vel saman og þess vegna langar mig að heyra útskýringar hæstv. samgrh. á því hvers vegna það skref hefur ekki verið stigið að færa umferðaröryggismálin undir samgrn.

Hér er jafnframt talað um almenningssamgöngur. Eins og við vitum þá hafa almenningssamgöngur átt mjög í vök að verjast, sama hvort um er að ræða flugsamgöngur eða rútubílaakstur og er sannarlega ekki vanþörf á að taka það til heildarendurskoðunar og skipulagningar til að koma þar á betra lagi. En þar kemur náttúrlega inn í rekstrargrundvöllur slíks almenningssamgangnakerfis og við sjáum hvernig málin eru að þróast í flugsamgöngum.

Ég hika ekki við að halda því fram að fækkun farþega í flugi er fyrst og fremst vegna þess hve flugið er dýrt. Menn voru að ræða um Sauðárkróksflugvöll áðan, þar sem Flugfélag Íslands hætti að fljúga í venjubundnu áætlunarflugi með vélum sínum, sem fyrir nokkrum árum voru 50 sæta Fokker Friendship vélar. Þeim farþegum er nú þjónað af ágætu flugfélagi, Íslandsflugi, sem flýgur þangað að vísu tvisvar á dag, kvölds og morgna, með 20 manna vélar. Nú kann að vera að farþegum hafi kannski ekki mikið fækkað en með bættum vegum, bættu vetrarviðhaldi, meiri mokstri, hálkuvörn og þess háttar er líklegra að menn taki þann kostinn að keyra. Það segir sig sjálft að þurfi tveir eða fleiri aðilar úr sömu fjölskyldu að ferðast þá hlýtur peningahliðin að vega mjög þungt þegar tekin er ákvörðun um hvort flogið verði með áætlunarflugi eða farið með bíl. Og þegar ekki eru nú meira en þriggja og hálfs tíma akstur frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þá liggur auðvitað í augum uppi hvort verður fyrir valinu.

Þó að það hafi sennilega aldrei verið kannað virðist sem stór hluti þeirra sem nota flug ferðist á vegum t.d. fyrirtækja sem þeir vinna hjá, séu í ýmiss konar þjónustustörfum og öðru slíku sem hefur auðvitað mikið að segja í þessum efnum.

Varðandi vegáætlunina og uppbyggingu vega þá ætla ég ekki að fara mikið út í þá umræðu hér en auðvitað má hafa langt mál um uppbyggingu vegakerfisins. Þeir sem ferðast mikið um á landsbyggðinni hafa svo sem kynnst ýmsu í þessum efnum. Auðvitað á eftir að gera margt á mörgum svæðum. Inn í það blandast m.a. það sem kemur fram í tillögum stýrihóps um samgönguáætlun. Þar er á bls. 16 það sem ég kalla stundum hið ófagra litakort sem sýnir þróun byggðar frá 1990--2000. Það skyldi þó ekki vera þannig að lesa mætti töluvert út úr þessari áætlun þar sem fólki hefur fækkað mjög mikið á landsbyggðinni, að þar séu um leið töluverðir erfiðleikar í samgöngumálum? Skiptir þá ekki máli hvort maður tekur t.d. eins og norðausturhornið, þar sem talað var um að fækkað hefði um 3,3% og svæðin hér allt í kring, þar sem eru eins og ég segi ískyggilegar tölur, mjög háar og ógnvekjandi, auðvitað blandast þar inn í vegakerfið og samgöngur við viðkomandi svæði o.s.frv.

Það sýnir náttúrlega hvað við eigum geysilega mikið eftir í að byggja upp vegi víðast hvar á landsbyggðinni, og það er auðvitað mjög alvarlegt mál, að nú árið 2002 séu sumir vegir jafnvel ekki með 5 eða 7 daga snjómokstur, hafi ekki verið byggðir upp og séu hálfgerðir moldartroðningar, svo maður noti nú ekki sterkari orð.

Inn í þessa þróun blandast auðvitað líka flugsamgöngur. Eins og ég gat um áðan eru þær stöðugt að verða erfiðari og erfiðari, vegna kostnaðar fyrst og fremst. Á áttunda áratugnum voru í notkun 30 áætlunarflugvellir en í dag eru þeir eitthvað um 11 eða 12. Reyndar er það misvísandi í þessari skýrslu, þ.e. hvort þeir eru 11 eða 12. En þetta er auðvitað ískyggileg þróun sem verður að hafa í huga. Nokkrir staðanna eru ekki mjög langt hér frá höfuðborgarsvæðinu, tökum sem dæmi flugvelli á Snæfellsnesi, t.d. Stykkishólmi. Þetta er stutt vegalengd að keyra og stuttur ferðatími á bíl gerir flugið einfaldlega ekki samkeppnishæft.

Öðru máli gegnir um aðra staði sem eru á korti á bls. 79 í samgönguáætluninni sem sýnir flugvelli með áætlunarflugi árið 2000 og áætlunarleiðir. Þessum flugvöllum er skipt upp í flokka. Hér eru flokkaðir í fyrsta flokk flugvellir með allar þær kröfur sem til þeirra eru gerðar, þ.e. að þær flugbrautir þurfa að vera 1.400 metrar eða lengri. Síðan er fjallað um allan öryggisútbúnað, malbik, steypt plön og annað slíkt.

Í öðrum flokki eru flugvellir sem eru 1.200 metrar. Þetta leiðir hugann að þessari áætlun sem hér er sett fram og því sem við erum hér að fjalla um, þ.e. þessa heildstæðu samgönguáætlun: Hvað ætlum við að gera við ákveðna staði á landsbyggðinni sem uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru um flugvelli, þ.e. fyrir fyrsta flokk og jafnvel ekki annan flokk? Engu að síður eru staðirnir mjög háðir flugsamgöngum.

Ég sé að hæstv. samgrh. hefur þurft að bregða sér frá en ég ætla samt sem áður að halda áfram ræðu minni og leggja spurningu fyrir hæstv. ráðherra þegar hann kemur aftur. Ég er hér að fjalla um nokkra smástaði sem eru ákaflega háðir flugsamgöngum. Þar hafa verið settar upp flugsamgöngur sem styrktar eru af ríkissjóði vegna þess að þær flugsamgöngur báru sig ekki og í raun og veru er ekkert óeðlilegt við það. Það er í sjálfu sér bara mjög eðlilegt að það sé tekið upp og nægir í því sambandi að nefna flugvellina að Gjögri, í Grímsey og á Vopnafirði.

Samkvæmt því plani sem hér er sett upp get ég ekki séð að flugsamgöngur til þessara staða haldi áfram í framtíðinni ef við skilgreinum þessar kröfur svo þröngt sem hér er, ef ekkert verður gert til að bæta það. Tökum bara sem dæmi Grímsey. Ég held að í samgönguáætlun sem við munum gera og fjalla um í haust verði að hafa í huga áætlunarflug til Grímseyjar. Með öðrum orðum: Grímseyingar geta ekki sætt sig við að samgöngur þeirra byggist eingöngu upp á ferjusiglingum. Því ætlaði ég að spyrja hæstv. samgrh. út í hvað ætti að gera í þessum efnum. Í raun er nákvæmlega sama staða á Vopnafirði þó að staða Grímseyjar sé náttúrlega sérstök. Vopnafjörður hefur verið tengdur flugi frá Akureyri, þegar flogið er frá Akureyri til Þórshafnar og Vopnafjarðar eða öfugt. Ég get ekki séð að flugvöllurinn á Vopnafirði muni uppfylla þau skilyrði sem hér eru sett.

[16:45]

Hvað á að gera við flug til Vopnafjarðar? Þar verður að mínu mati að tryggja þær lágmarksaðstæður sem hægt er að setja um flugvöll þannig að hægt sé að stunda áætlunarflug þangað eins og gert er nú, þó svo að það sé í tengingu við Þórshöfn. Vopnfirðingar munu ekki geta, svo ég taki það sem dæmi, ferðast að vetrarlagi til Egilsstaða svo vel sé til þess að ná þar í flug, og ferðatíminn, akstursleiðin frá Vopnafirði til Reykjavíkur er mjög löng og yfir erfiðan fjallveg er að fara frá Vopnafirði. Þess vegna hlýtur það að koma inn í þessa áætlun að taka á þessum stöðum með aðgerðum, ég ætla ekkert endilega að segja sértækum aðgerðum, en það verður sérstaklega að hafa þetta í huga nákvæmlega eins og með Gjögur. Vetrarsamgöngur eru ekki mjög tryggar við Gjögur og þangað er flogið áætlunarflug sem hefur verið boðið út og er styrkt. En að mínu mati verður að skoða sérstaklega brautir á þessum flugvöllum sem ég hef fjallað um.

Ég sé svo að í þessu sama korti er heimastaður minn, Siglufjörður, merktur eins. En það er ekki nema sennilega eitt til eitt og hálft ár síðan fastbundið áætlunarflug lagðist af frá Reykjavík til Siglufjarðar. Það er sett inn í áætlunarleiðina Reykjavík/Sauðárkrókur með rútuferðum bæði kvölds og morgna milli Sauðárkróks og Siglufjarðar. Ég hika ekki við að halda því fram að auðvitað styrkir þetta flug þjónustuaðilans til Sauðárkróks þó svo að Siglfirðingar í sjálfu sér hefðu helst kosið að flogið yrði alla leið eins og var. Meira að segja við þann góða stað hafa samgöngur breyst því það er orðið töluvert auðveldara að keyra þangað eftir að vegurinn var lagður bundnu slitlagi alla leið.

Herra forseti. Þessi atriði vildi ég nefna í ræðu minni vegna þess að þó að við séum að tala hér um göfugt og gott markmið með samgönguáætlun til 12 ára sem tekur á öllum þessum þáttum, sama hvort þeir eru í lofti, láði eða legi, þá verður samt sem áður að fara mjög gaumgæfilega í gegnum þetta gagnvart mjög mörgum byggðarlögum á Íslandi. Ef það þarf, herra forseti, að taka á nokkrum stöðum með sértækum hætti þá er það mín skoðun að það verði að gerast með því að skoða þessa þætti. Með öðrum orðum, svo ég taki bara skýrt dæmi, þá tel ég að Vopnfirðingar verði að hafa aðgang að flugsamgöngum. Þó það flug sé tengiflug frá Akureyri þá er það auðvitað mjög gott, tengt við Þórshöfn. Það gerir það að verkum að rekstraraðilinn hefur vonandi betri rekstrarskilyrði.

Herra forseti. Svona rétt í lokin, þá er það náttúrlega kaldhæðni örlaganna að áætlunarflug hefur lagst af á Húsavíkurflugvelli þrátt fyrir þá glæsilegu og miklu aðstöðu sem byggð hefur verið upp þar, þ.e. flugbraut með bundnu slitlagi og allt það, en áætlunarferðir eru á milli Húsavíkur og Akureyrar. Ég get ekki alveg sagt fyrir hvað löngu verið var að byggja upp flugvöllinn á Húsavík. En það er ekki mjög langt síðan og það sýnir okkur kannski og segir að við hefðum átt að vera búin að skoða þetta heildstætt miklu fyrr. Þess vegna er gott að þetta skuli loksins vera að koma fram núna.

Herra forseti. Ég sé að hæstv. samgrh. er ekki í salnum. Ég er þó ekkert endilega að láta kalla eftir honum til þess að geta lagt fram þessar spurningar. Ég mun þá gera það frekar bara ... (Gripið fram í.) Ég mun þá kannski leggja þær spurningar fyrir hæstv. samgrh. við lokaræðu hans hér á eftir. En það var nú þetta helst sem ég vildi fara í ...

(Forseti (HBl): Það er verið að athuga með hæstv. samgrh. Það er kannski rétt að athuga hvort formaður samgn. sé hér eða varaformaður samgn. sem e.t.v. gæti greitt úr þeim spurningum sem hv. þm. hefur fram að færa.)

Kærar þakkir, hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég var ekki búinn að óska eftir því að hæstv. samgrh. yrði hér við þegar ég legði fram þessar spurningar. Þetta eru örfáar spurningar sem hafa vaknað við yfirferð á tillögum stýrihópsins sem auðvitað blandast inn í þetta mál.

Hæstv. forseti. Rétt í lokin vil ég rifja það upp sem ég vildi spyrja hæstv. samgrh. út í og ég hef gert hér að umtalsefni. Ég var að ræða um flugvelli og hvernig þeir eru skilgreindir sem flokkur 1 og flokkur 2. Út af fyrir sig er ég ekkert að andmæla því að það sé gert þannig. Þetta eru öryggiskröfur sem settar eru fram. Síðan eru í samgönguáætlun eða tillögu stýrihópsins taldir upp flugvellir sem eru í þessum flokkum. Ég vil nota tækifærið hér í lokin og spyrja hæstv. samgrh. út í það sem ég gerði að umtalsefni, þ.e. hvað menn hafa rætt um og hvað menn hyggjast gera gagnvart þeim litlu byggðarlögum sem háð eru flugi í dag sem miklum samöngubótum en eru með flugvelli sem ekki eru í flokki 1 eða flokki 2. Ég nefndi í því sambandi flugvellina á Gjögri, Grímsey og Vopnafirði. Þá tók ég sem dæmi. Ég gat ekki séð við yfirferð á þessari skýrslu að þeir mundu flokkast undir þessa tvo flokka sem ég nefndi. Þangað eru flugsamgöngur sem eru að vísu styrktar og fé hefur verið veitt í. Spurning mín til hæstv. samgrh. var hvernig menn ætla sér að taka á þessum smærri stöðum þegar heildstæð samgönguáætlun verður rædd og hvort rætt hafi verið í stýrihópnum hvernig með þessa smástaði eigi að fara. Og ég hef hér eingöngu gert að umtalsefni, herra forseti, þá þætti sem varða flugið.