Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:24:26 (6260)

2002-03-19 17:24:26# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka aftur fyrir svörin. Það er mjög mikilvægt að fá þær upplýsingar að hér sé að vænta tillagna um breytingu á vegáætlun eða tillagna um hvernig með skuli farið og hvaða framkvæmdir það verði sem verður frestað eða slegnar af vegna þess niðurskurðar sem boðaður er og blasir við.

Varðandi samsetningu samgönguráðsins aftur þá minnti mig að það ráð sem lagt var til í tillögum 1991 hafi verið talsvert miklu breiðara að samsetningu. Ég skal fletta upp á því, það er best að segja ekki meira en maður getur örugglega staðið við en það kæmi mér á óvart ef svo hefði ekki verið og þetta væri ekki rétt munað. Ég man a.m.k. að sú nefnd sem að því vann og það undirbjó var mjög breið og í henni sátu fulltrúar aðila eins og ferðaþjónustunnar, fulltrúar frá háskólum, frá umhverfishlið og fleiri slíkir aðilar. Og þannig tel ég heppilegast að þetta sé vegna þess að samgöngurnar hafa svo breiða skírskotun og tengingu inn í svo marga málaflokka. Að þessum ágætu embættismönnum aftur ólöstuðum, þá held ég að það væri frjórra að kalla þarna fleiri til.