Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:30:30 (6263)

2002-03-19 17:30:30# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að sjálfsögðu að á hverjum tíma sé nauðsynlegt að fara yfir og endurmeta stefnu stjórnvalda varðandi alla samgönguþætti, þar á meðal strandsiglingar. Ég vil ekki útiloka neitt í þeim efnum fyrir fram. Ég tel að samræmd samgönguáætlun sé einmitt vettvangur og leið til að meta það kalt og vel ígrundað hvernig stjórnvöld eigi að koma að til að bæta samgöngukerfið og gera það hagkvæmara fyrir notandann. Það er auðvitað hið almenna viðfangsefni.

Ég hef ekki gefið mér það fyrir fram að hefja eigi sérstakan stuðning, t.d. við strandsiglingar. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að skoða málin og ég hef sagt frá því áður í þinginu að nú er starfandi nefnd á vegum samgrn., viðskrn. og fjmrn. sem er að fara yfir það hvaða kostir eru í stöðunni til að lækka flutningskostnað milli landshluta, m.a. með tilliti til sjóflutninga.

Ég tel að við þurfum að halda áfram þessari vinnu og leita þeirra kosta sem hagstæðastir eru, m.a. hvað varðar sjóflutningana. En ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um það fyrir fram að til sé einhver patentlausn sem feli í sér að við getum fært svo og svo mikinn hluta af flutningum á sjóinn. Þetta þarf að meta hverju sinni.