Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:41:02 (6267)

2002-03-19 17:41:02# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held, að gefnu tilefni, að þingflokkur Vinstri grænna ætti að horfa oftar yfir öxlina á hv. þm. þannig að betra tækifæri gæfist til samræðna og skoðanaskipta innan þingflokksins, um þau mál sem eru á dagskrá í nefndum.

Vegna þess sem hv. þm. sagði um að brtt. gæfu tilefni til að komast að þeirri niðurstöðu sem hv. þm. leggur til er það mesti misskilningur. Ég benti fyrr í umræðunni á brtt. sem þingmaðurinn leggur til, sem gengur m.a. út á að samgönguáætlun skuli vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum. Ég vakti athygli á því að í grg. með frv. er einmitt sérstaklega tekið fram að löggjöfin byggi á þessari stefnumörkun. Hér liggur ekkert fyrir um að byggja megi á tillögum hv. þm. Jóns Bjarnasonar eitthvað sem gæti leitt til að samgönguráði yrði breytt. Hér er um einhvern misskilning að ræða á milli hv. þingmanna.