Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 17:58:10 (6270)

2002-03-19 17:58:10# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur alveg skýrt fram í frv., þrátt fyrir það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði í ræðu sinni, að samgönguáætlun er lögð fram í þinginu á ábyrgð samgrh.

Hins vegar verður nú ekki allt gert á höndum ráðherra. Þess vegna eru stofnanir undir ráðuneytum sem þurfa að vinna sitthvað, m.a. að áætlanagerð. Því er í fyllsta máta eðlilegt að tilteknir embættismenn komi að og hafi yfirumsjón með áætlanagerð. Svo er í dag. Það ætti því ekki að koma hv. þm. neitt úr jafnvægi. Það er í fyllsta máta eðlilegt. Sá samgrh. sem hér stendur er ekki á nokkurn hátt að skjóta sér undan ábyrgð vegna þess að áætlunin verður lögð fram á hans ábyrgð fyrir þingið, hver svo sem undirbýr þá vinnu. Það liggur algjörlega ljóst fyrir.

En hvað það varðar að sett sé í lagatexta að stofnanir ráðuneyta vinni saman þá held ég að það geti nú ekki verið til baga. Það er alveg ljóst að lög gilda um þessar tilteknu stofnanir og þær eru að því marki sjálfstæðar sem lög gera ráð fyrir. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að í lagatextanum liggi alveg ljóst fyrir að þegar kemur að samgönguáætlun vinni þessar stofnanir saman. Því er ekki nokkur minnsta ástæða fyrir hv. þingmenn að gera það tortryggilegt.