Samgönguáætlun

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:06:08 (6274)

2002-03-19 18:06:08# 127. lþ. 99.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv. 71/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli mína að svo er komist að orði í brtt. frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, 5. þm. Norðurl. v., með leyfi forseta:

,,Samgönguáætlun skal vera í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum.``

Nú er það svo að samgönguáætlun verður ekki til fyrr en Alþingi samþykkir hana. Og það er svolítið erfitt að hugsa sér það að Alþingi eigi að vera bundið af því að samþykkja áætlun sem sé í samræmi við einhverjar áætlanir stjórnvalda. Ég held að hv. þm. snúi þessu við. Ég held að væri nær að hér stæði að stefnumörkun stjórnvalda í umhverfismálum, umferðaröryggismálum, byggðamálum og almenningssamgöngum sé í samræmi við samgönguáætlun Alþingis. Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé að hv. þm. geri sér grein fyrir því að ekki er hægt að binda Alþingi með þessum hætti í lögum. Alþingi hlýtur að samþykkja þá samgönguáætlun sem því sýnist á hverjum tíma sem meiri hlutinn segir til um og ekki hægt með lagagrein að binda hendur Alþingis. Ég hygg því að hv. þm. hafi hlaupið á sig með textanum eins og hann liggur fyrir og væri kannski rétt að hv. þm. dragi þessa tillögu til baka til 3. umr. og reyndi að íhuga nánar hvað fyrir honum vakir.

Eins átta ég mig ekki alveg á því hvernig hv. þm. hugsar sér það þegar við erum t.d. að velta fyrir okkur vegagerð, hvernig hægt sé að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar í því sambandi.