Lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:20:47 (6280)

2002-03-19 18:20:47# 127. lþ. 99.5 fundur 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 73/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í því frv. til laga sem við ræðum hér, um breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl., er eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, sem mælti fyrir nál. sem ég skrifaði undir með fyrirvara, gerð grein fyrir því sem til stendur. Annars vegar eru lagðar til breytingar á skipan flugráðs og hafnaráðs sem eru veigamestu breytingarnar. Ég er efnislega sammála mestu af því sem þar kemur fram. Þetta fellur kannski undir lagatæknileg atriði til að auðvelda það að vinna hina stóru samgöngu\-áætlun sem við vorum að ræða hér áðan. Þetta þjónar þeim tilgangi.

Ég get svo sem haft skoðanir á því hve margir eigi að sitja í flugráði og hverjir eigi að tilnefna í flugráð. Hér er gerð sú breyting á því að tveir aðilar skuli tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar. Jafnframt er kveðið á um að þessir fulltrúar skuli hafa þekkingu á flugmálum og skuli sú þekking a.m.k. ná til innanlandsflugs, millilandaflugs og almenns flugs. Síðan er fjallað um að skipunartími flugráðs sé fjögur ár en skuli þó takmarka við embættistíma þess ráðherra sem flugráðið skipar.

Herra forseti. Ég er mjög sáttur við síðasttalda atriðið. Mér finnst það til eftirbreytni og sakna þess eiginlega að það skuli ekki eiga við um fleiri slík ráð. Ég sagði það í umræðum um frv. sem rætt var hér áðan sem varðaði svipað atriði. Ég gæti svo sem haft ýmsar skoðanir á því hverjir eigi að sitja í flugráði og hvort það eigi að vera skipað fimm mönnum eða sex en hér eru lagðar til breytingar varðandi breytt starfssvið flugráðs.

Jafnframt eru hér breytingar á skipun hafnaráðs, að það skuli skipað sex mönnum, tveir skuli tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum, einn tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins og þrír fulltrúar skuli skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum. Þarna er ekki kveðið á um atriði líkt og getið er um varðandi flugráð. Skipunartími hafnaráðs yrði þá fjögur ár en takmarkast ekki við embættistíma þess ráðherra sem skipar.

Ég spurðist fyrir um það við 1. umr. þessa máls hvort ekki mætti taka lagaákvæði um sjóvarnir og fella undir starfssvið hafnaráðs og en fékk frekar dræm viðbrögð við því. Það var þó ekki talið tæknilega óframkvæmanlegt. Ég sakna þess að það hafi ekki verið gert. Mér finnst þetta sé allt mjög líkt og hefði viljað sjá frv. sett fram þannig.

Jafnframt voru fulltrúar Vegagerðarinnar spurðir út í það í samgn. hvort ekki væri ástæða til að skipa einhvers konar vegaráð, í samræmi við hafnaráð sem fjallar um hafnamál og siglingamál og flugráð sem fjallar um flugmál og flugvallamál. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, eftir að hafa heyrt svör forsvarsmanna Vegagerðarinnar um þetta og útskýringar þeirra --- þetta var ekki mikið rætt í samgn. --- að ég var innilega sammála sjónarmiðum þeirra. Ég segi því alveg hiklaust, og legg það þess vegna ekki til hér eða í hv. samgn. Þessar útskýringar forsvarsmanna Vegagerðarinnar nægðu til að sannfæra mig um að það ætti ekki að gera.

Ég hef áður sagt að ég tel vinnubrögð Vegagerðarinnar mjög fagleg og að þar sé mjög faglega unnið. Við sjáum það náttúrlega á ýmsum gögnum frá Vegagerðinni, hvort sem það á við um vegi á Suðurlandi, á Hvolsvelli, Siglufirði eða annars staðar, að þar er um mjög fagleg vinnubrögð að ræða. Í raun og veru hefur maður stundum hugsað að mikið lifandis ósköp vildi maður óska þess að öll ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir ynnu jafnfaglega og Vegagerðin gerir. Þau gögn sem við þingmenn biðjum um og fáum frá Vegagerðinni og umdæmisskrifstofum hennar eru mjög faglega unnin og til mikillar fyrirmyndar.

Þetta segi ég hér í lokin, herra forseti, m.a. til rökstuðnings fyrir því sem nefnt var í byrjun um hvort ekki væri ástæða til þess að hafa vegaráð. Ég fékk þau svör á fundi samgn. að ég sannfærðist um að vegaráð á ekki að vera til og skipan vegamála er í raun ágæt eins og hún er.

Herra forseti. Hér við 2. umr. þarf ekki að ræða þetta mál mikið frekar. Þetta eru sjálfsagðar breytingar sem verið er að gera til þess að undirbúa hina stóru samgönguáætlun.