Geislavarnir

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:27:33 (6281)

2002-03-19 18:27:33# 127. lþ. 99.7 fundur 344. mál: #A geislavarnir# (heildarlög) frv. 44/2002, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:27]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. heilbr.- og trn. um 344. mál, frv. til laga um geislavarnir.

Nefndin fékk vegna þessa máls fjölmarga gesti og sérfræðinga á sinn fund og tók við fjölda umsagna.

Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um geislavarnir. Talsverðar áherslu- og viðhorfsbreytingar hafa orðið í geislavörnum í heiminum frá því að núgildandi lög voru sett. Koma þær meðal annars fram í nýjum leiðbeiningum Alþjóðageislavarnaráðsins og tveimur nýjum tilskipunum frá Evrópusambandinu um þetta efni. Rétt er að taka fram að geislavarnir innan Evrópusambandsins byggjast á svonefndum EURATOM-samningi frá 1956 en hann er ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ber Íslendingum því ekki á þeim grundvelli skylda til að innleiða evrópskar reglur á þessu sviði. Engu að síður hafa heilbrigðisyfirvöld lagt á það áherslu að laga íslenska löggjöf og framkvæmd að löggjöf og framkvæmd geislavarna innan Evrópusambandsins. Er það vel, að mati nefndarinnar.

Frumvarpið felur í sér nokkur nýmæli og eru þau talin upp í athugasemdum við frumvarpið.

Helsta nýmæli frumvarpsins er þó fólgið í því að lagt er til að gildissvið laga um geislavarnir verði víkkað út þannig að þau taki einnig til ójónandi geislunar. Í þessu sambandi fjallaði nefndin sérstaklega um það hvort þetta hefði í för með sér skörun á milli starfssviðs Geislavarna ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins. Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ber Vinnueftirlitinu að hafa eftirlit með ójónandi geislun á vinnustöðum og hefur því eftirliti verið sinnt. Nefndin telur nauðsynlegt að verksvið hvors aðila sé skýrt og gerir hún breytingartillögur við frumvarpið sem miða að því að það eftirlit sem Vinnueftirlitið hefur haft með höndum og lýtur að starfsmönnum haldist óbreytt frá því sem nú er.

Nefndin vill taka það fram að hún telur nauðsynlegt að sambærilegar reglur gildi um eftirlit og ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðlega geislun um borð í loftförum. Eins og málum er nú háttað heyrir þetta undir samgönguráðuneytið og flugmálayfirvöld. Samstarf hefur verið með aðilum um þetta eftirlit en nauðsynlegt er að mati nefndarinnar að því séu settar fastar skorður. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar fer nú fram vinna innan Evrópusambandsins og á norrænum vettvangi um setningu reglna á þessu sviði.

Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins er lagt til að Geislavarnir ríkisins haldi skrá yfir niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits með geislun fyrir einstaka starfsmenn. Í 14. gr. er síðan gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem þessi skráning er bundin og jafnframt tekið fram að hún skuli fara eftir lögum um persónuvernd. Þetta felur í sér að Persónuvernd getur sett frekari skilyrði fyrir skráningunni og vinnslu þeirra upplýsinga sem í skrána fara í samræmi við lög um persónuvernd. Með þessu telur nefndin að ýtrustu aðgætni sé gætt varðandi öryggi vinnslu persónuupplýsinga.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Undir nál. þetta rita auk framsögumanns hv. þm. Ásta Möller, Katrín Fjeldsted, Ásta R. Jóhannesdóttir, Þuríður Backman og Margrét Frímannsdóttir.